Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Síða 224
231
samtímis því sem það hrífst með í alþjóðlegum flaumi. Hið nýja Ísland
hefur ekki bylst til betri vegar að loknum ósköpum síðari heimsstyrjaldar;
það varð meira fyrirtæki og minna samfélag en vonir stóðu til. Pétur hefur
semsagt orðið innlyksa í eigin væntingum og veruleikahugmyndum – sem
eru orðaðar á allt að því hátíðlegan hátt: „Svo að vinna manns fái öruggt,
óhagganlegt gildi, sameini föðurland, þjóð, tungu og manngildi í trú á
hugsjón og sigur mannsins yfir rándýrinu [...]“ (166). En þannig hefur líka
lokast fyrir lifandi samband hans við nánustu lífsförunauta, hvað þá aðra
sem eru með honum í sama klefa, svo ég noti mér heiti áður umræddrar
skáldsögu sem fjallar einmitt um erfitt en mikilvægt samtal fólks sem á
meira sameiginlegt en það gerir sér grein fyrir.
Lifandi vatnið – – – er ein af lykilskáldsögum íslensks módernisma,
margflókið verk þar sem reynt er að taka utan um sundraðan heim, raða
saman lífi með brotum úr persónusögu, íslensku umhverfi og veraldar-
sögu á miklum sviptingatímum. Skáldsagan er meðal annars könnun á því
hvernig viðkvæm lund mótast, drekkur í sig gildi og tekur á sig mynd sem
síðan fjarar undan á nýju veraldarsviði. „Maður er ungur, en það er eyða í
lífi hans, innst inni er einhver nagandi eyða hvort sem maður vinnur á sjó
eða landi: hungur, þorsti, ótti við eitthvað, hann veit ekki hvað. Kannski
tilgangsleysið“ (163). Þessi eyða og óvissa birtist í þankastrikinu sem er
þrítekið í heiti skáldsögunnar og sem jafnframt setur mikinn svip á texta
verksins sem er í senn flæðandi og margrofinn. Margar raddir tala inn í líf
Péturs, en hann á erfitt með að finna lífi sínu stöðugan reit: „Ég byggi hús
mitt fyrir mig og ég bý þar einn“ (202). Þetta hús er rótlaus tilvist hans.
„Ég er snigillinn með húsið mitt á bakinu“ (199). Það myndmál túlkar
einsemd hans og einrúm, en ekki þá ferð og að því er virðist vonlausu
leit að upprunanum sem hann heldur í. Hann er „týndur maður“, eins
og ítrekað kemur fram, en vegurinn sem hann fer er ekki merkingarlaus.
Vegirnir í verkum Jakobínu tengjast hinu strjálbýla landi sem heild og sú
heild má ekki glatast; leiðin liggur allt frá hinum „vegalausu öræfum“ sem
hún yrkir um í ljóðinu „Á ferð um Hornstrandir 1943“ til borgarstrætanna
í Dægurvísu. Leiðin getur legið um sjávarslóð milli landshluta eins og í
skáldsögunni Í sama klefa eða þjóðvegi sem bera áætlunarbílinn í Lifandi
vatninu – – –. „Þjóðvegur“ er óhjákvæmilega hlaðið orð í samhengi þess-
arar greinar og sá vegur liggur ekki aðeins til sveita, heldur út í náttúruna
og þjónar tilfinningatengslum mannsins við hana.
JaKOBÍnUVEGIR