Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Qupperneq 225
232
Pétur Pétursson hafði alist upp með fjöll í augsýn:
Lítill maður skilur að guð varð að skapa fjöllin eins og þau eru, með
snarbröttum hömrum og hengiflugum efst og hvössum brúnum.
[...] Í ljósi og skuggum allra árstíða horfir lítill maður hugfanginn á
mikilleik og staðfestu fjallanna, hvort sem beljandi leysingarlækirnir
drynja í hverju gili á vorin, syngjandi glaðan söng nýrra, grænk-
andi daga, eða rósöm tign sumardagsins stafar kyrrlæti og öryggi frá
brúnum, hömrum, hlíðum og urðum, eða þögn haustdagsins grúfir
í dökku skýi niður um miðjar brúnir, en þó eru þau honum hvað
hjartfólgnust í vetrarbúningnum, hvít og svört, með hvelfdar fann-
dyngjur og snarbrattar, íhvolfar hengjur í efstu brúnum. (95)
Það ætti ekki að vekja furðu að í huga höfundar sem óx úr grasi á
Hornströndum skuli fjöllin vera teikn um sáttmála mannsins við mikil-
leik, dulmagn og váboða náttúrunnar. Brot á þeim sáttmála birtist síðar í
sömu skáldsögu þegar erlendir hermenn reisa „hervirki á fjallstindi úti við
fjarðarmynnið“ (162). Í afstöðunni til vegarins upp á fjallið falla saman nátt-
úruhugsun og samfélagssýn Jakobínu. Þessi vegur birtist einnig í Snörunni,
þegar sóparinn segir frá því að herliðið hafi sett upp „einhverja varðstöð
þarna á fjallinu. Og vegurinn lá um túnið hjá pabba, svo hann fékk heil-
miklar skaðabætur.“28 Og enn hnykkir Jakobína á þessu nýja landnámi,
þessari fjalltöku, í sögu sem beinlínis heitir „Vegurinn upp á fjallið“ og
birtist í smásagnasafni sem ber sama heiti. Sonur kemur heim til móður á
sveitabæ – ekki af því að hann hafi áhuga á búskapnum eða á fólkinu sínu,
heldur ætlar hann að græða á vegarlagningu upp á fjall sem heyrir undir
bæ móður hans – hluti fjallsins verður tekinn eignarnámi undir radarstöð
hersins ef ekki semst.29 Þetta er í senn mótíf og sögulegur veruleiki, sem
líklegt er að Jakobína sæki til þess er bandaríska herliðið á Íslandi fékk að
byggja herstöð á Straumnesfjalli á Hornströndum árið 1953, skömmu eftir
að byggð á því svæði lagðist í eyði, en það var þó ekki eina fjallið sem lagt var
undir slík mannvirki. Ljóst er að Jakobínu hefur sviðið það mjög að erlendu
herliði skyldi ekki aðeins vera leyft að dvelja á Íslandi eftir lok heimsstyrjald-
arinnar heldur hafi það fengið leyfi til að ryðja sér leið upp á reginfjöll, líkt
og það gæti borið ægishjálm í senn yfir mannfólk og náttúru landsins.
28 Snaran, bls. 24.
29 „Vegurinn upp á fjallið“, Vegurinn upp á fjallið, Reykjavík: Mál og menning, 1990,
bls. 29-50, hér bls. 42-44.
ÁstrÁður EystEinsson