Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Page 227
234
hefur orðið hált á svellinu þennan dag, hugsar ráð sitt í kvöldsvalanum.
„Útvarpið er opið. Karlmaður flytur heimspekilegt erindi um torskilin
rök fyrir tilvist sálarinnar í hinu undarlega efnisþokufyrirbæri, sem nefn-
ist maður.“ Svövu finnst notalegt að hafa þessa rödd úr útvarpinu sem
einskonar hljómbotn og segja má að heimspekingurinn sé einn af gestum
hússins þennan dag og leggi til línu í „dægurvísu“ þess. Á einhverjum
tímapunkti nær hann að rjúfa þankagang Svövu, því hún hugsar: „– Hvað
skyldi það vera þetta sjálf, sem maðurinn er alltaf að staglast á? að honum
skuli ekki leiðast þetta.“31 Í fljótu bragði mætti ætla að þessi viðbrögð
opinberi grunnhyggni Svövu, sem virðist mjög upptekin af lífsþægindum
þótt hún sé einnig með hugann við gamlan kærasta, sem gæti kollsteypt
hennar borgaralega lífi og hjónabandi. Eða hefur höfundurinn beitt þess-
um eilítið spaugilegu viðbrögðum hennar við heimspekierindinu, til að
vekja spurningar lesandans um hvaðan flestar hugmyndir um „sjálfið“ hafi
komið í gegnum tíðina. Svarið getur ekki orðið annað en: Úr því und-
arlega efnisþokufyrirbæri sem nefnist karlmaður. Þetta dæmi er ekki svo
léttvægt framlag í alla þá samskiptasyrpu kynjanna sem á sér stað í þessu
húsi og þessari hópsögu.32
Hitt húsið hennar Jakobínu er endurbygging en þó á sinn hátt einnig
nýsmíði og var raunar til umfjöllunar við upphaf þessarar greinar. Í síð-
ustu bók Jakobínu, Í barndómi, sem hún náði að ljúka við en kom út að
henni látinni, fjallar hún um tilraun sína til að heimsækja æskuheimilið í
Hælavík – eins og það var. Hún hefur borið þetta heimili, sem nú er fallið
í rúst, innra með sér alla ævi, en ekki skal nú unað lengur við þær marg-
31 Dægurvísa. Saga úr Reykjavíkurlífinu, Hafnarfjörður: Skuggsjá, 1965, bls. 139–
140.
32 Um Dægurvísu sem borgarverk fjalla ég stuttlega í greininni „Hlið við hlið. Tap-
að-fundið í framandi borgum“, Ritið 2/2018, bls. 17-49, sjá bls. 32-33. Áhugavert
er að bera húsið í Dægurvísu saman við ólík hús (með lokaðra einkarými) í öðrum
borgarskáldsögum, til dæmis í Leigjandanum eftir Svövu Jakobsdóttur og í Hring-
sóli Álfrúnar Gunnlaugsdóttur. Um þau hús hef ég fjallað í greinunum „að eiga
sér stað. Tómarúm, staður og steinn í sögum Svövu Jakobsdóttur“ í tímaritinu
Andvara 2001 og „Hvirfill. Tilraun um Hringsól“ í bókinni Rúnir. Greinasafn um
skáldskap og fræðastörf Álfrúnar Gunnlaugsdóttur, ritstj. Guðni Elísson, Reykjavík:
Háskólaútgáfan, 2010. Í Hringsóli býr aðalpersónan, sem er kona, drjúgan hluta
ævinnar í húsi sem mótar örlög hennar en hún myndar þó aldrei lifandi tengsl við
þessa vistarveru. Leigjandinn snýst ekki síst um leit konu að vistarveru, samastað í
tilverunni – svo vísað sé til samnefndrar bókar eftir Málfríði Einarsdóttur þar sem
fjallað er með öðrum hætti um skyldar aðstæður; um tilvistarrými, hvort sem það
efnisgerist beinlínis í húsnæði eða ekki.
ÁstrÁður EystEinsson