Hugur - 01.01.2004, Page 6
Hugur | 15. ÁR, 2003 | s. 4-7
Inngangur ritstjóra
Fyrir rúmum aldarfjórðungi tók franski heimspekingurinn Michel Foucault
að móta hugtakið „lífvald“ (bio-pouvoir) sem er skurðpunktur þriggja greina
sem mynda þema 15. árgangs Hugar. Mikið hefur borið á hugtakinu í fræði-
legri umræðu á undanförnum árum. Meðal þeirra sem þróað hafa kenningu
Foucaults um lífvaldið eru ítalski heimspekingurinn Antonio Negri og
bandaríski bókmenntafræðingurinn Michael Hardt. Negri var prófessor í
heimspeki við háskólann í Padua á Italíu þegar hann var handtekinn árið
1979 ásakaður um að vera „heilinn" á bakvið hryðjuverkasamtökin Rauðu
herdeildirnar. Negri öðlaðist þinghelgi þegar hann var kjörinn á ítalska þing-
ið árið 1983 en flúði til Parísar tveimur mánuðum síðar er þingið ákvað að
rjúfa þinghelgi hans. Hann var fjórtán ár í útlegð og kenndi heimspeki við
Université Paris VIII. Árið 1997 snéri hann sjálfviljugur til Rómar þar sem
hann afplánaði afganginn af dómnum fram til vorsins 2003. Aldamótaárið
2000 sendu Negri og fyrrum nemandi hans, Hardt, frá sér metsölubókina
Veldið (Empixe). Viðar Þorsteinsson gerði bókinni skil í greininni „Hið nýja
Veldi“ í Lesbók Morgunblaðsins (26. júlí 2003) og þýðir hér formála bókarinn-
ar ásamt undirkaflanum „Lífpólitísk framleiðsla". I greininni „Af nýju líf-
valdi. Líftækni, nýfrjálshyggja og lífsiðfræði" notast Hjörleifur Finnsson við
kenningar Foucaults og Negris/Hardts til að greina þenslu póstmódernísks
kapítalisma út fyrir hina ytri náttúru og inn í þá nýju auðlind sem líftækni-
iðnaðurinn og lífvísindin hyggjast ausa úr. Hjörleifur ræðir um íslenska
erfðagreiningu og ráðgjafaþjónustu íslenskrar lífsiðfræði í því samhengi.
Garðar Árnason, sem vinnur að doktorsritgerð um vísindaheimspeki Fou-
caults, fjallar um lífvald í grein sinni „Vísindi, gagniýni, sannleikur“ þar sem
tengsl valds og þekkingar eru til umfjöllunar.
Garðar bendir á að vísindaheimspeki Foucaults hafi ýmislegt að bjóða rök-
greiningarheimspekingum, og erum við þar með komin að óformlegu þema
heftisins sem er gjáin á milli meginlandsheimspeki og rökgreiningarheim-
speki. I tilefni þess að breski heimspekingurinn Simon Critchley hélt fyrir-
lestur við Háskóla Islands í maílok 2003 ritaði Sigríður Þorgeirsdóttir grein
fyrir Heimspekivefinn sem birtist hér í endurskoðaðri útgáfu: „Meginlands-
heimspeki og rökgreiningarheimspeki“. Lýsandi fyrir átökin milli þessara
ólíku heimspekihefða eru mótmælin sem rökgreiningarheimspekingar, með
Willard van Orman Quine í fararbroddi, birtu í Times (9. maí 1992) gegn
væntanlegri heiðursdoktorsnafnbót franska hugsuðarins Jacques Derrida frá
Cambridge-háskóla á þeirri forsendu að hér væri ekki réttnefndur heim-
spekingur á ferð.