Hugur - 01.01.2004, Blaðsíða 215
Vísindi, gagnrýni, sannleikur
213
hvorki sönn né ósönn, í þeim skilningi að það er alls ekki ljóst við hvers kon-
ar aðstæður hún væri sönn eða ósönn. Jafnvel viðföngin sjálf eru að einhverju
leyti afsprengi hugsunarkerfis og orðræðu þess, eins og „maðurinn“ sem við-
fang þekkingarsköpunar varð til í ákveðinni orðræðu seint á 18. öld. Samspil
þekkingar og valds skapar eigin viðföng, eins og afbrotamanninn. En
ákvarðar valdið hvað sé satt? Þess verður að gæta að valdið sem um ræðir er
ekki vald sem einhver hefur og því er sannleikurinn ekki einfaldlega skoðun
þess sem valdið hefiir. En leiðir það af greiningu Foucaults á valdi og þekk-
ingu að sannleikurinn sé ekki annað en útkoma ákveðinna valdatengsla? Nei,
valdatengslin ákvarða ekki hvað er satt, en samt er sannleikurinn háður valdi:
Það sem skiptir hér máli, held ég, er að sannleikurinn er ekki fyrir
utan vald, né skortir hann vald: Ofugt við goðsögnina, en vert væri
að rannsaka nánar sögu og hlutverk hennar, þá er sannleikurinn ekki
laun hins frjálsa anda, barn langvarandi einsemdar, né forréttindi
þess sem hefur tekist að brjóta af sér hlekkina. Sannleikurinn er
þessa heims: Hann er einungis framleiddur með höftum af ýmsu
tagi. Og hann hefur regluleg valdsáhrif. Hvert samfélag hefur sína
sannleiksstjórn, sín „almennu stjórnmál“ sannleikans.40
Foucault notar hér „sannleiksstjórn" og „almenn stjórnmál sannleikans" um
nánast það sama. Ég nota hins vegar „stjórnmál sannleikans" einungis um
staðbundin átök þar sem tekist er á um valdsáhrif ákveðinnar vísindalegrar
orðræðu og um vísindalega orðræðu ákveðins valds. „Sannleiksstjórn“ er aft-
ur á móti það skipulag sem samfélag hefur á orðræðum sannleikans, þ.e.
hvernig vald og þekking eru stillt saman í samfélaginu. Þannig samanstend-
ur sannleiksstjórn almennt af eftirfarandi þáttum: „Þeim tegundum orðræðu
sem samfélagið samþykkir og gefur hlutverk sannleikans; aðferðum og dæm-
um sem gera kleift að skilja á milli sannra og ósannra setninga, hvernig hvort
um sig er staðfest; þeirri tækni og þeim aðferðum sem er gefið gildi við að
afla sannleikans; stöðu þeirra sem hafa það hlutverk að segja það sem telst
satt.“41 Sýn Foucaults á sannleikann er mjög félagsleg, en það leiðir ekki af
henni að sanngildi setninga ákvarðist af félagslegum öflum. I raun skiptir
sanngildið, í frumspekilegum skilningi, ekki máli fyrir Foucault, heldur þau
félagslegu sigurverk sem skilja að sannar og ósannar setningar, og valdið sem
sannar setningar hafa.
Vestræn samfélög nútímans búa yfir sannleiksstjórn sem byggir á vísinda-
legri þekkingu. Greiningu Foucaults á sannleiksstjórn í þessum samfélögum
má lýsa sem svo:
Sannleikurinn er látinn snúast um vísindalega orðræðu og þær
stofnanir sem framleiða hana.
40 Michel Foucault: „Truth and Power [1977]“ Power/Knowledge, bls. 131.
41 Sami, bls. 131.