Hugur - 01.01.2004, Page 21
,Merleau-Ponty varfrumlegri en nokkuð sempóststrúktúralistarnirgerðu" 19
„módern“: tímabil eða menningarskeið skilgreinir sig sjálft sem eftirkom-
anda þess sem það vill afskrifa eða lýsa úrelt (Castoriadis fer út í þessa sálma
í greininni „The Retreat from Autonomy. Post-Modernism as Generalized
Conformism“ sem birtist í Thesis Eleven 1992). Kannski er ósanngjarnt að
láta þar við sitja. Nú má póstmódernisminn heita útdauður (ég held ég hafi
einhvers staðar séð bók sem heitir Rememberingpostmodernism [- Trends in
Recent Canadian Art, Mark Cheetham og Linda Hutcheon, 1991]) og þar
með verður auðveldara að fá eitthvert vit í hann sem sögulegt og menning-
arlegt fyrirbæri. Það má með öðrum orðum líta á hann sem athyglisvert frá-
brigði, hvað sem hugtakalegu ósamræmi líður. Ef við tökum þennan pól í
hæðina getum við lagt tvennan skilning í orðið. Við getum lesið það sem
„póst-módernismi“, þ.e.a.s. sem afneitun módernisma eða tilraun til að leysa
hann af hólmi. Til hafa verið módernismar af ýmsu tagi - heimspekilegir,
fagurfræðilegir og pólitískir - og má til sanns vegar færa að þeir hafi verið
komnir í kreppu um það bil sem póstmódernisminn skaut upp kollinum. En
„módernismar“ eru einhliða túlkanir á nútímanum sem búa til upphafna
mynd af honum, og gagniýni hefur fylgt þeim frá upphafi. Hér er sem sagt
um að ræða ágreining og samspil sem er snar þáttur í nútímanum, og póst-
módernisminn virðist ekki hafa verið annað en nýtt tilbrigði við það þema.
Hin túlkunin er „póstmódern-ismi“, þ.e.a.s. sú trú að við séum komin á — eða
að komast á — nýtt söguskeið, sem ekki ætti lengur að teljast til nútímans.
Þetta má að mínu viti hrekja með bæði reynslurökum og hugtakagreiningu.
I fyrsta lagi eru þeir sögulegu þættir, sem mynduðu nútímann, enn í fullu
gildi. Hnattvæðingin er ein af þeim - hún á sér miklu lengri sögu og er miklu
fjær því að hafa umbylt öllu en stundum var haldið fram á síðasta áratug tutt-
ugustu aldarinnar). Póstmódernistum hefur aldrei tekist að sýna fram á neitt
annað. I öðru lagi sýnist mér að allar skilgreiningar á tímamótum milli
módern og póstmódern hafi lent inn á þær brautir sem þær vildu forðast í
fyrstu: breytingin er útskýrð sem einhver tegund af framförum eða
upplýsingu. Þar með erum við komin aftur í hugmyndaheim nútímans. Að
öllu samanlögðu hefur því póstmódernisminn aldrei verið annað en útúrdúr
í sögu nútímans — sjálfsgagniýni módernismans sem misskilur sjálfan sig
(„self-misunderstanding self-critique of modernity“).