Hugur - 01.01.2004, Page 224
222
Sigríður Þorgeirsdóttir
að. í einu beinu vísan sinni til Carnaps viðurkenndi Heidegger að milli
þeirra lægi það sem væri „hin dulda miðja hugsunarinnar." Critchley tekur
Heidegger á orðinu því í lokakafla bókarinnar tekur hann sér fyrir hendur að
sýna hvernig heimspekin geti numið þessa duldu miðju hugsunarinnar ein-
mitt með því að forðast öfgar vísinda- og andskynsemishyggju.
Síðasti kafli bókar Critchleys um meginlandsheimspeki er jafnframt sá
persónulegasti því hér fjallar hann um þá grein heimspeki sem stendur hon-
um sjálfum næst. Hann telur að fyrirbærafræðin sem Edmund Husserl lagði
grunn að sé sú grein heimspekinnar sem geti sýnt fram á að vísindi séu bara
ein mikilvæg gerð þekkingar meðal annarra án þess að falla í gryfju andskyn-
semishyggju.
í þessu samhengi bendir Critchley á að fyrirbærafræði og rökgreiningar-
heimspeki eigi sér sameiginlega forsögu. Husserl, höfiindur fyrirbærafræð-
innar, og Gottlob Frege, upphafsmaður rökgreiningarheimspeki, hafi báðir
orðið fyrir áhrifum af heimspeki Bernards Bolzanos og Franz Brentanos. Frá
Bolzano hafi þeir fengið þá hugmynd að hugsanir séu ekki bara huglægar og
hugrænar. Þær hafi vitsmunalegt inntak sem sé greinanlegt. Brentano hafi
aftur á móti kennt þeim að hugsanir væru ætlandi eða íbyggnar og beinist að
hlutum í heiminum og því ekki lokaðar inni í meðvitund. A grundvelli þess-
ara hugmynda hafi Frege og Husserl hvor með sínum hætti hafnað efa-
hyggju og afstæðishyggju um þekkingu, sem og þeirri skoðun sálarhyggju
(psychologism) að öll heimspekileg og rökræn vandamál mætti skýra sem sál-
ræn ferli. Hinn sameiginlegi grundvöllur málspeki Freges og fyrirbærafræði
Husserls sé þess vegna gagnrýni sálarhyggjunnar og höfnun þeirra á smætt-
un heimspeki niður í raunvísindi.
Að þessu sögðu ætti ekki að koma á óvart að Critchley skuli telja sig sjá í
fyrirbærafræði leið til þess að forðast öfgar beggja heimspekihefða og hana
jafnframt vera til þess fallna að gefa meginlandsheimspeki sérstöðu. I þessu
augnamiði vísar hann í skilgreiningu Maurice Merleau-Pontys á fyrirbæra-
fræðinni sem aðferð til að komast niður á hið „for-fræðilega stig mannlegr-
ar reynslu" af hlutum og persónum og finna gildar leiðir til að lýsa henni á
nákvæman og trúverðugan hátt. (113) Heidegger, nemandi Husserls, hafi
gefið sér sömu forsendur, og þróað verufræði sína út frá þeim. Eins og Mer-
leau-Ponty hafi hann verið þeirrar skoðunar að vísindalegar útskýringar á
veruleikanum nærðust á for-fræðilegum skilningi á heiminum sem maður-
inn byggi yfir. Þetta væri skilningur á því sem fyrirbærafræðingar kalla „um-
heiminn", en það er heimurinn umhverfis okkur eins og við upplifum hann
á merkingarbæran hátt. Ekki bæri að skilja þetta svo að fyrirbærafræðin sé
andvísindaleg; nema síður væri. Husserl lagði áherslu á að fyrirbærafræðileg
greining væri ekki síður nákvæm en hin vísindalega aðferð. Hún sé fyrst og
fremst aðferð til að lýsa mannlegri reynslu með því að komast í gegnum og
undir hin ýmsu lög vísindalegra og hvers konar hugmyndafræðilegra skil-
greininga tiltekinnar reynslu. Þetta merkir að maðurinn hefði ekki sjálfkrafa
beinan aðgang að forfræðilegri reynslu af fyrirbærum. Fyrirbærafræðin sé
aðferð sem byggði á því að læra á nýjan leik að sjá heiminn út frá lifaðri