Skírnir - 01.01.1956, Blaðsíða 97
Skírnir Um merkingu matsorða og hlutverk siðfræðinga 95
ingar. Ef þessi skoðun er rétt, er auðvitað engin ástæða til
að ætla, að hægt sé að finna mælikvarða gildis, því að ég er
bezt dómbær um tilfinningar mínar og þú um þínar. Deilur
um gildi eru raunverulega smekksatriði. Þessi skoðun á það
sameiginlegt með kenningu Moores, að gildisdómar eru taldir
sannir eða ósannir. Þeir eru lýsingar, þótt „x er gott“ sé nú
talið vera lýsing á sálarástandi þess, sem dóminn fellir. Gall-
inn er þó sá, að staðhæfing Sigurðar, að Egill sé góður maður,
virðist vera um Egil, en ekki sálarástand Sigurðar. Ef ég er
ósammála Sigurði, er ég hvorki að lýsa tilfinningum mínum
né rengja Sigurð um, að hann segi rétt frá sálarástandi sínu.
Ég er að bera brigður á, að mat hans á Agli sé rétt. Eru
matsdómar ef til vill alls ekki lýsingar? A. J. Ayer setur fram
þá skoðun í bók sinni Language Truth and Logic, að orðið
„góður“ og önnur orð, sem notuð eru til mats, lýsi ekki til-
finningum, heldur láti í ljós tilfinningar.
V. Mat og upphrópanir.
Ayer1) telur, að rangt sé að líta á „staðhæfinguna" — Jón
er góður maður — sem lýsingu á Jóni, sem kunni að vera
sönn eða ósönn. Þessa skoðun sína byggir hann að nokkru
leyti á kcnningu sinni um merkingu staðhæfinga. Þeim má
skipta í tvo flokka, þær, sem segja eitthvað um veruleikann
og eru staðfestar af reynslunni, ef þær eru sannar, og stað-
hæfingar, sem segja ekkert um veruleikann og eru sannar,
ef táknin, sem notuð eru, eru notuð á réttan hátt. Ef við skilj-
um táknin, getum við séð, hvort staðhæfingar af síðari teg-
undinni eru sannar eða ekki án þess að skoða heiminn í
kringum okkur. Þessum flokki tilheyra allar stærðfræði- og
rökfræðisetningar. Ef við skiljum, hvað 2, •, = og 4 merkja,
vitum við, að 2-2 = 4 er sönn staðhæfing. Hvað svo sem
kann að gerast í veröldinni, getur það ekki haft nein áhrif
á sannleiksgildi þessa. Ef við segjum aftur á móti, að sykur
leysist upp í vatni, ber að skilja þetta sem staðhæfingu um,
1) Ayer mun nú hafa breytt nokkuð skoðunum sínum. Hér er miðað
við það, sem hann segir í hók sinni Language Truth and Logic.