Skírnir - 01.01.1956, Blaðsíða 104
102
Páll S. Árdal
Skirnir
boðorðin eru rétt, þótt við vitum, að guð hafi skipað okkur
að hlýða þeim. Veikleikinn í slíkri röksemdafærslu var þó ekki
fyrst uppgötvaður af nútíma-heimspekingum, því að bæði
Hume og Kant voru þessa minnugir.
Heimspekingur, sem telur hlutverk sitt að greina rökfræði-
legt samband siðahugtaka, verður að vera þess minnugur,
að ekki má draga neinar ályktanir um, hvernig við eigum
að breyta, af orðum hans. Ástæðan fyrir þessu er sú, að rök-
rænt samband siðahugtaka er háð því, hverjar siðahugmyndir
okkar eru. Ef við viljum t. d. athuga rökrænt samband hug-
takanna „hegning“ og „sekt“, má glögglega sjá þetta. Kom-
umst við í mótsögn við sjálf okkur, ef við segjum, að Jón sé
sekur, en verðskuldi samt ekki hegningu? Ef við erum þeirr-
ar skoðunar, að hegning sé ætíð fullkomlega réttlætt með því
einu að benda á, að sá, sem hegna á, hafi framið afbrot,
kann okkur að virðast augljóst, að spurningunni verði að
svara játandi. En þeir, sem telja hegningu ranga, nema því
aðeins að hún leiði til þess, að hinn seki verði betri maður,
mundu neita því, að þeir séu rökfræðilega neyddir til að við-
urkenna, að hegna skuli Jóni, ef þeir telja hann sekan. Allir
þeir, sem líta á glæpi sem meinsemd og telja glæpamanninn
sjúkling, mundu vera á sama máli. Þannig getur röksamband
siðahugtaka breytzt með siðahugmyndum manna, og rök-
fræðileg greining ein getur því aldrei stutt neinar sérstakar
siðferðishugmyndir. Ef þú staðhæfir eitt, verður þú að telja
aðra staðhæfingu sanna, ef þú vilt ekki gerast sekur um rök-
villu. Þannig fer öll rökfræðileg greining tungunnar fram.
Siðfræðingurinn getur þá einungis varað okkur við því að
gerast ekki sekir um rökvillur. Benda má t. d. á, að við get-
um ekki sagt, að einhver sé góður maður, en breytni hans
sé þó að jafnaði röng. Jafnvel þetta er þó ekki augljós mót-
sögn, þvi að vel má vera, að ég kalli manninn góðan vegna
þess, að ég tel hann góðviljaðan, en góðviljaðir menn geta
verið leiðitamir og þá getur skort dómgreind. Góður vilji er
ekki ósamrýmanlegur rangri breytni. Aðrir kunna að telja,
að sá, sem er svo veiklundaður og dómgreindarsljór, að breytni
hans sé að jafnaði röng, geti ekki talizt góður maður. Þetta