Skírnir - 01.01.1956, Side 98
96
Páll S. Árdal
Skírnir
hvaS muni gerast, ef ákveðnum skilyrðum er fullnægt. Allar
lýsingar á veröldinni eru af þessu tæi. Merking slíkra stað-
hæfinga felst í aðferðinni, sem við notum til þess að skera
úr um, hvort þær eru sannar eða ekki. Ef engin hugsanleg
tilraun gazti staðfest sannleiksgildi þeirra, hafa þær enga merk-
ingu. Ayer reyndi með þessu móti að sýna fram á, að ýmis-
legt, sem fyrri heimspekingar hefðu sagt, væri ekki rangt,
heldur merkingarlaust. Ef við staðhæfum til dæmis, að tími
og rúm séu blekkingar einar, er hér ekki um ranga staðhæf-
ingu að ræða. Slíkar kenningar eru í rauninni engar kenn-
ingar, og þeir, sem halda slíku fram, nota orð án merkingar.
Hér skal engin tilraun gerð til að gagnrýna skoðun Ayers
á merkingu, en hvað á hann að segja um siðadóma og mats-
dóma yfirleitt? Augljóst er, að orð okkar hafa merkingu, er
við segjum, að eitthvað sé rétt, rangt, gott, illt, ljótt, fagurt.
Það er ekki misnotkun á tungunni að halda því fram, að
þekking sé ekki góð. Við komumst ekki í mótsögn við sjálf
okkur með því einu að aðhyllast þessa skoðun. Við getum
ekki séð, hvort þessi staðhæfing er röng á sama hátt og við
sjáum, að „Jón er ekki bróðir systur sinnar“ hlýtur að vera
röng staðhæfing, ef merkingu orðanna er ekki breytt. Ef hér
væri um dulmál að ræða, gætum við auðvitað ekki ákveðið
sannleiksgildi staðhæfingarinnar á svo einfaldan hátt. Er við
deilum um gildi einhvers, er deilan heldur ekki um það, hvað
muni gerast, ef ákveðnum skilyrðum er fullnægt. Tveir menn
geta verið algjörlega sammála um, hver hegðun þriðja aðila
hafi verið, en annar getur samt talið hana ranga, þótt hinum
finnist hún lofsamleg. Deilan er ekki um staðreyndir, og
gæti því engin tilraun skorið úr um, hvor hafi á réttu að
standa. Hvað merkja þá siðadómar?
Ayer bendir á, að við notum stundum orð til að tjá tilfinn-
ingar okkar. Þegar fólkið hrópar „húrra“ fyrir ræðumönnun-
um 17. júní, er það að láta í ljós tilfinningar sínar. Ef ég segi,
að ræðan hafi verið góð, er ég að gera slíkt hið sama. Þess ber
vel að gæta, að ég er ekki að staðhæfa, hverjar tilfinningar
mínar séu, því að hér er alls ekki um staðhæfingu að ræða.
„x er gott“ er ekki rökfræðileg mótsögn við „x er ekki gott“.