Skírnir - 01.09.1998, Blaðsíða 32
302
DICK RINGLER OG ÁSLAUG SVERRISDÓTTIR SKÍRNIR
(1) Snemma árs 1844, þegar Jónas orti „Ég bið að heilsal", voru flestir
skúfar á skotthúfum íslenskra kvenna gerðir úr grænu silki. Þannig
endurspeglar græni skúfurinn í elstu (handrits)gerð ljóðs Jónasar
dæmigerða samtímavenju og honum er ætlað að vekja kunnuglegar
og ljúfar tilfinningar.
(2) En áður en Jónas birti ljóðið í Fjölni seinna þetta sama ár ákvað hann
að breyta litnum á skúfnum í rauðan, sennilega (ef röksemdafærslan í
fyrsta hluta þessarar greinar er rétt) vegna þess að hann vildi nú gera
hann að róttæku pólitísku tákni og áeggjan til landa sinna. Hann lét
prenta orðið „rauður“ með gleiðletri til þess að undirstrika það og
vekja á því athygli. I heimi grænu skúfanna gat ekki farið hjá því að
rauði skúfurinn hans Jónasar hefði töluverð áhrif á athugula lesend-
ur. Sumir þeirra hljóta að hafa ráðið rétt í róttækan pólitískan boð-
skap hans (þó að enginn þeirra hafi, því miður, skilið eftir sig vitnis-
burð um slíkt).53
(3) Þegar texti ljóðsins í Fjölni, með rauða skúfinn, var endurprentaður
1847, í fyrsta safni ljóða Jónasar, var gleiðletrinu sleppt. Það vantaði
síðan í allar útgáfur af ljóðum Jónasar fram að útgáfunni 1989. Þess
vegna hefur rauði skúfurinn hans Jónasar - í heimi þar sem svartir
skúfar gerast ríkjandi - í auknum mæli orkað á lesendur sem bókstaf-
leg lýsing sjónarvottar á venju fyrri tíma. I raun réttri (sjáið hvernig
goðsagnir verða til og þróast!) varð rauði skúfurinn hjá Jónasi
sönnunargagn um almenna notkun rauðra skúfa á hans dögum, og er
meira að segja notaður sem sönnunargagn í Islenzkum þjóðháttum
Jónasar Jónassonar (bls. 24).
(4) Þannig gerðist það að sökum gríðarlegra vinsælda þessa ljóðs Jónasar
spratt upp sú goðsögn að rauðir skúfar hefðu verið algengir - jafnvel
ríkjandi - á dögum Jónasar. Þetta er goðsögn sem enn lifir góðu lífi í
hugum margra Islendinga, goðsögn sem er nú orðin föst í sessi og
náði hámarki þróunar sinnar og sennilega mestum áhrifum árið 1986
þegar endurprentuð voru upphaflega ólituð steinprent eftir Auguste
Meyer úr leiðangri Gaimards (1836), og um það bil þrír tugir skúfa
voru litaðir rauðir, þrátt fyrir skýlausa staðhæfingu annars af leið-
angursmönnunum um að á þeim tíma gengu íslenskar konur með
„litla svarta húfu skreytta með löngum grænum skúf“.54
53 Það má auðvitað geta sér til um að boðskapur Jónasar hafi ekki farið fyrir
ofan garð og neðan hjá þeim mönnum sem skipulögðu Norðurreið Skagfirð-
inga 1849. Minna má á að tveir þeirra voru faðir og bróðir vinar Jónasar,
Fjölnismannsins Konráðs Gíslasonar.
54 Hér er ekki ætlunin að gagnrýna Islandsmyndir Mayers 1836 ([Reykjavík]:
Bókaútgáfan Orn og Örlygur, 1986). Þeir sem gengu frá henni til útgáfu unnu