Skírnir - 01.09.1998, Blaðsíða 233
SKÍRNIR
ÓSEGJANLEG ÁST
503
veltum okkur í öldunum
smíðum enga lykla70
Þessu kalli er hættulegt að hlýða og það tekur Z langan tíma að stíga
skrefið til fulls. Framan af í sambandi hennar við Onnu reynir hún að
lifa tvöföldu lífi því hún óttast afhjúpun, að verða úthrópuð sem „ónátt-
úran sjálf holdi klædd“, en ef það gerðist gæti hún „ekki lifað, [...] ekki
horft framan í nokkurn mann“ (63). Afneitun Z á Önnu, og þar með á
samkynhneigð (sem hún endurtekur a.m.k. þrisvar sinnum), er staðfest-
ing á Kristsminninu. Það gerir hún t.d. þegar hún hlustar á hómófóbísk-
an vinnufélaga lýsa heimsókn sinni á ball í Risinu þar sem allt er
„morandi af hommum og lessum, einsog skríðandi maurar“ (109). Z
þegir eins og aðrir nærstaddir meðan maðurinn lýsir, á þriðju blaðsíðu,
viðbjóði sínum og fyrirlitningu á samkynhneigðum. Að lokum stynur
hún upp úr sér, eins og þvert gegn vilja sínum: „Aumingja þú, að lenda í
svona, en fórstu ekki bara heim?“ (112). Að því búnu fer hún sjálf heim
og grætur afneitun sína og hugleysi. Svona vinnustaðatal kannast flestir
við og líka að hafa setið undir því þegjandi og hljóðalaust. Þegar Z fær
loks hugrekki til að játast ástinni ónefnanlegu er það of seint, rétt eins og
í grískum harmleik. Þá loks fær hún að vita að Anna er dauðvona og þar
með ástarsamband þeirra.
Sjónarhornið í sögunni er að stórum hluta hjá Arnþrúði en hún er
eins konar fulltrúi hins gagnkynhneigða lesanda. Henni, og okkur, er
ætlað „að læra margt á einni nóttu.“ Til dæmis að „í raun og sannleika
[er] enginn munur á fólki þegar allt kemur til alls, að hugsanir hins
venjulega manns [eru] ævinlega á svipuðum nótum og flestar þeirra
[beinast] að einföldustu leiðinni í leit að lífshamingju“. Henni lærist að
finna til með Z og Onnu og „öllu því sem þær geta aldrei eignast saman
þótt þær vildu, jafnvel þótt þær óskuðu þess að haga lífi sínu venjulega
og eiga saman venjulega daga undir venjulegu álagi vinnu, rifrildis og
framtíðaráforma". Hún finnur líka til með sjálfri sér fyrir „að hafa aldrei
hugsað þessar hugsanir um konur eins og þær“ (154). Þessi skilningur og
70 Vigdís Grímsdóttir, Lendar elskhugans, Reykjavík: Iðunn, 1995, bls. 41-42.
Freistandi er að líta á húsið hálfhrunda sem „hús“ gagnkynhneigðs einkvænis;
hús föðurins/karlveldis. I því húsi hefur konan engin lyklavöld, engan fallos,
þ.e. ekkert vald. Tilgangslaust er fyrir konu að smíða lykil að þessu húsi og
hreint ekki eftirsóknarvert því það er komið að falli! Svar konunnar og útleið
úr húsinu virðist vera ímyndunin og ímyndað rými; sbr. að henni er boðið að
fljúga út um þakgluggann og búa í klakahöll.