Skírnir - 01.09.1998, Blaðsíða 212
482
GEIR SVANSSON
SKÍRNIR
er víðtækara en svo. Eve Kosovsky Sedgewick segir „hinsegin" vera
„opið merkingarnet möguleika" sem tekur við þegar grundvallarþættir í
kyngervi hvers og eins ná ekki að tákna einhlítt og stöðugt eðli.15 Fjöl-
breytileika mannlegs kynferðis er ekki hægt að fanga í föstum skilgrein-
ingum og Berlant og Warner telja brýnt að forðast afmarkanir sem fælu í
sér frystingu sjálfsmynda og kyngerva því þar með væri pólitískur slag-
kraftur og andóf hinsegin fræða að engu orðið.
„Gjörningskenning“ (performative tbeory)l(‘ bandarísku fræðikon-
unnar Judith Butler miðar að því að sýna fram á grundvallar óstöðug-
leika kyngerva og sjálfsmynda. Grunninn að kenningu sinni setur hún
fram í bókinni Kyngervisusli: Feminismi og niðurrif sjálfsmyndar sem út
kom árið 1990, en útfærir hana og þróar í bókunum Efni(s)legir líkamar
(1993) og Æsingatal (1997).17 Rannsókn Butlers er m.a. róttæk gagnrýni
á eðlishyggju og hvernig henni er beitt sem hugmyndafræðilegu valda-
tæki, en samkvæmt eðlishyggju eru ýmsar venjur og hugmyndir varð-
andi kyngervishegðun náttúrulegar og eðlisbundnar staðreyndir. Þessar
„staðreyndir" viðhalda síðan hefðbundinni samfélagsgerð á grundvelli
fastmótaðrar kynhlutverkaskiptingar. Hugsanlegur óstöðugleiki kyn-
gerva og óvissa um merkingu þeirra hefur valdið nokkrum vanda í fem-
inískri umræðu og óttast sumir að þessi óvissa grafi undan tilverugrund-
velli feminisma. Deilurnar sem hafa sprottið af þessu tilefni eru stundum
sagðar endurspegla átök eðlishyggju og mótunarhyggju (konstrúktív-
isma). Róttæk feminísk eðlishyggja byggir á alhæfingum um „konuna"
og sérstæði sem oftar en ekki grundvallast á líffræðilegum staðreyndum
urn líkama hennar. A hinum pólnum, í orðræðu mótunarhyggjunnar, er
líkamanum hafnað sem pólitískum grundvelli, og hann skoðaður nánast
sem hreinn tilbúningur, eða kynbundinn líkamleiki, í tungumálinu.
Staða Butlers á þessum átakaási liggur nær síðarnefnda pólnum en hún
telur samt ekki ástæðu til að afneita líkamanum og ganga tungumálalegri
afstæðishyggju á hönd. Butler álítur þessa deilu, og aðrar misvísandi
áherslur innan feminískrar orðræðu, ekki vandamál sem verði að forðast
eða ýta til hliðar svo að hinar „réttu" áherslur eða pólitík megi dafna.
15 Skilgreiningu á „queer“ í þessa veru er að finna í bók hennar Tendencies,
Texas: Duke University Press, 1993, bls. 8-9.
16 Gjörningur felur í sér gjörð, að eitthvað sé gert, en ekki má gleyma hinum
„leikræna“ þætti sem felst í orðinu „performance".
17 Gender Trouble: Feminism and the Subversion of Identity, London: Rout-
ledge, 1990; Bodies That Matter: On the Discursive Limits of „Sex“, London:
Routledge, 1993; Excitable Speech: A Politics of the Performative, London:
Routledge, 1997.