Skírnir - 01.09.1998, Blaðsíða 165
SKÍRNIR
,KYNBÆTT AF ÞÚSUND ÞRAUTUM'
435
væri ekki langt að bíða, að í heilbrigðislöggjöf þjóðanna yrði
„engu síður lögð áhersla á heilsuvottorð hjóna en skírnarseðil
þeirra".33 Hann ræddi hins vegar ekki frekar hvernig nota ætti
þessar upplýsingar hér á landi.
Þótt Agúst hafi verið fylgjandi neikvæðum mannkynbótum
beindi hann tillögum sínum ekki sérstaklega að íslensku samfélagi
heldur fjallaði um þær á almennum nótum, með tilvísun í hug-
myndir eða aðgerðir Bandaríkjamanna og fleiri þjóða:
Fækkun eða útrýming hinna vangefnu er ekki aðalatriðið. En þó er það
næsta þýðingarmikið, að girt sé eftir mætti fyrir það, að geggjað fólk og
fáráðlingar, léttúðugt fólk og viljalaust, afbrotamenn og vændiskonur og
annað misindisfólk, sem í fullkomnu ábyrgðar- og hugsunarleysi er
gjarnt á að hlaða niður börnum, geti sér afkvæmi. Vönun á slíku fólki er
gagngerðasta ráðstöfunin og nú víða lögleidd, og þarf ekki nema litla að-
gerð á karlmönnum, sem í engu heftir samfarir þeirra, en girðir fyrir
barneignir, til þessa, og er henni því víða beitt með ljúfu samþykki
þeirra. Annað er, að einangra slíkt fólk á hælum og á vinnustöðvum, en
það kemur oft að litlu gagni, því að slíku fólki er iðulega hleypt þaðan út
aftur annað veifið, og tekur það þá upp aftur sitt fyrra, ábyrgðarlausa líf-
erni. Þriðja ráðið er að reyna að taka fyrir hjónabönd sálsjúkra manna og
þeirra, er þjást af arfgengum eða smitandi sjúkdómum með læknisskoð-
un og læknisvottorðum. En bæði er það, að þessum vottorðum er ekki
alltaf treystandi, og svo hitt, að menn geta getið sér afkvæmi utan hjóna-
bands. Gagngerðasta ráðstöfunin væri auðvitað, ef menn yfirleitt reyndu
að forðast holdlegt samneyti við slíkt fólk og að það fengi þann stimpil á
sig í almenningsálitinu, að við það væri ekkert eigandi. En það á sjálfsagt
langt í land, enda ekki auðvelt að greina sauðina frá höfrunum.34
Aftur á móti heimfærði Ágúst sumar hugmyndir sínar um já-
kvæðar kynbætur beint upp á íslenskt samfélag. Hann taldi til að
mynda mjög mikilvægt að Islendingar væru fræddir um mann-
kynbótastefnuna þannig að það yrði „lenzka að fara að ráðum
hennar".35 Leið að því markmiði væri að gera líffræði að skyldu-
námsgrein í skólum. Með þeim hætti mætti koma þjóðinni í
skilning um mikilvægi erfða.36
33 Steingrímur Matthíasson: Heilsufrœði, 164.
34 Ágúst H. Bjarnason: Vandamál mannlegs lífs, 55.
35 Ágúst H. Bjarnason: Siðfræði, 210-11.
36 Ágúst H. Bjarnason: Vandamál mannlegs lífs, 58.