Skírnir - 01.09.1998, Blaðsíða 78
348
GEIR SIGURÐSSON
SKÍRNIR
Lúthers.15 Þessi margþætta notkun Lúthers á hugtakinu „Beruf“,
sem nú á dögum merkir á þýsku hversdagsmáli einfaldlega „at-
vinna“ eða „starf“, var vafalítið engin tilviljun, því kenning hans
um köllunina beindist að hluta til að þeim einkarétti sem klaust-
urkerfi miðalda hafði á guðlegri köllun. Að dómi Lúthers stuðl-
aði þetta kerfi að hræsni og vann gegn boðskapi fagnaðarerindis-
ins: Til að öðlast náð fyrir augum Guðs leituðust munkar og
nunnur við að herma í einu og öllu eftir lífi heilagra manna og
framkvæma verk sem Guð hefði velþóknun á. En þar með var
sjálf trúin vanrækt og sömuleiðis ytra merki hennar, náungakær-
leikurinn. Hér var aðeins stefnt að eigin frelsun fyrir tilstilli
meinlætalifnaðar og góðra verka í einangrun klaustranna. Til að
breyta þessu setti Lúther fram tvær nýjar túlkanir á ritningunni: I
fyrsta lagi gaf hann trúnni forgang yfir verkin. Maðurinn frelsast
fyrir trú, en ekki fyrir verk. I öðru lagi túlkaði hann hugmyndina
um köllun svo að hún sneri einnig að hversdagslegum störfum al-
múgans og rauf þar með hin aldagömlu grundvallarskil er höfðu
ríkt á milli hins svokallaða vita contemplativa (hins andlega lífs)
og vita activa (athafnalífsins).16 Köllunin felst þar með ekki leng-
ur í því að loka sig af í klaustrum og stunda einungis andlega iðju,
heldur í því að rækja starf sitt í hinum veraldlega heimi af sem
mestri kostgæfni. Góðu verkin, sem þó leiða ekki til frelsunar -
það gerir aðeins trúin -, byggjast hins vegar á náungakærleik, að
sjá náunganum fyrir lífsnauðsynjum, og því verður best framfylgt
með því að sinna daglegum störfum af kostgæfni.
Lúther setur því fram, hugsanlega í fyrsta skipti í menningar-
sögu Vesturlanda, guðfræðilega eða frumspekilega réttlætingu á
veraldlegri vinnu. Líkt og Platón og Aristóteles lítur hann svo á
að vinnan sé þjáning, en andstætt þeim telur hann þessa þjáningu
leið mannsins til sjálfsuppfyllingar, því þjáningin líkir eftir písl
Krists. Með vinnunni berum við kross okkar og þjáumst með því
15 Max Weber: „Die protestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus.“
Gesammelte Aufsdtze zur Religionssoziologie I. 9. útg. (Túbingen: J. C. B.
Mohr (Paul Siebeck), 1988), bls. 17-206; hér er vísað til bls. 66 nmgr.
16 Sjá Theologische Realenzyklopddie (Berlin/New York: Walter de Gruyter),
Band III (1978), bls. 636. ’