Skírnir - 01.09.1998, Blaðsíða 195
SKÍRNIR
LAUNHELGAR LÆKNAVÍSINDANNA
465
Meðan ég held mig við þetta dæmi, þykist ég vera með mitt á
hreinu. - Getur ekki annars einhver prófessorinn eða sjálfur land-
læknirinn á fremsta bekk kinkað góðlátlega kolli, til marks um að
þið séuð öll sammála þessum skynsemdarorðum? - En geta svip-
uð verðmætavíxl ekki átt sér stað mun víðar, jafnvel á sviðum
sem eru raunverulega langt fyrir utan lögsögu læknavísindanna?
Þetta er sú spurning sem ég held að við ættum að leita svara við.
Algengt er að fullfrískir einstaklingar beri ugg í brjósti vegna
sjúkdóma sem á þá gætu herjað, en herja þó ekki í raun. Þeir sem
verst eru haldnir gerast hugsjúkir; þeir eru teknir undir verndar-
væng geðlæknisfræðinnar og sagðir vera ímyndunarveikir eða
„hýpókonderar“. Þeir eru bókstaflega veikir af áhyggjum. Hitt er
þó mun algengara, að sjúkdómsóttinn valdi ekki beinlínis hug-
sýki, heldur gegnsýri tilveruna með ísmeygilegum hætti og verði
nokkurs konar grunnþema í lífinu. Menn sjá áhættuþætti og sjúk-
dómsvalda við hvert fótmál og ráða öllum ráðum sínum með það
fyrir augum að sneiða hjá sjúkdómum og lengja lífdagana.
Ef slíkur sjúkdómsótti leggst þungt á menn, er hann mikið
böl. Sá sem stöðugt hefur áhyggjur af heilsufari sínu, hlýtur að
telja sig vera við lakari heilsu en ástæða er til. Þótt ævi manna í
vestrænum löndum hafi lengst á undanförnum áratugum, og þótt
læknar berjist af æ meiri hörku og þekkingu gegn fjöldamörgum
sjúkdómum, endurspeglast þessi þróun ekki í mati almennings á
heilsufari sínu. Víðtækar kannanir benda til þess að almenningur
trúi því staðfastlega að heilsufari sínu fari hrakandi.5 Þessi þver-
sögn ætti að vera þyrnir í augum heilbrigðisstarfsmanna, en svo
virðist ekki vera - læknarnir virðast að minnsta kosti una glaðir
við sitt, í fullvissu um að þeir láti gott af sér leiða. Hins vegar er
ekkert gamanmál ef sífelldur sjúkdómsuggur veldur því að hinn
5 Ágæta umfjöllun um þessa þversögn er að finna í Lœrebok i sosialmedisin, rit-
stjórar Kjell Noreik og Grete Stang (Osló: Ad notam Gyldendal, 1997).
Áreiðanlegastar heimildir fyrir þeirri þróun sem hér er um að ræða koma frá
Bandaríkjunum. Þar er ekki nema annar hver maður ánægður með heilsuna,
og þeim fer fækkandi. Níutíu og sex af hundraði Bandaríkjamanna sækjast eft-
ir því að breyta líkama sínum með einum eða öðrum hætti. Frá þessu segir í
bók A. J. Barsky, Veikir af hrœðslu eða Worried sick. Our troubled quest for
wellness, (Boston: Little, Brown and Co, 1988).