Skírnir - 01.09.1998, Blaðsíða 161
SKÍRNIR
„KYNBÆTT AF ÞÚSUND ÞRAUTUM'
431
Andstæða þeirra „úrkynjuðu" voru þeir „góðkynjuðu“. Ágúst
H. Bjarnason sótti meðal annars í dæmi bandarískra arfbótasinna
um ætt sem sýndi hvernig góðkynja fólki vegnaði í lífinu og
hversu mikill fengur væri í því fyrir þjóðfélagið:
Ættfaðir hennar var Jonathan Edwards (1703-58), merkur klerkur og
guðfræðingur. Afkomendur hans voru um síðustu aldamót orðnir 1394
talsins, þar af 295 háskólagengnir menn. Af þeim urðu 13 forsetar helztu
háskóla Bandaríkjanna; 65 háskólakennarar og forstöðumenn annara
merkra uppeldisstofnana; 60 urðu læknar og margir þeirra merkir; 100
eða fleiri urðu trúboðar, prestar og guðfræðikennarar; 75 urðu foringjar í
her og flota; 60 framúrskarandi skáld og rithöfundar; hafa þeir ritað 135
góðar bækur og staðið fyrir 18 merkum tímaritum. 33 ríki í Ameríku og
mörg erlend ríki, 92 amerískar borgir og margar erlendar hafa notið góðs
af dugnaði þeirra og atorku. 100 eða fleiri hafa orðið lögmenn og 1 þeirra
frægasti lögfræðingur Bandaríkjanna; 30 urðu dómarar. 80 hafa orðið
starfsmenn alríkisins og 1 varaforseti Bandaríkjanna; 3 hafa setið í öld-
ungadeildinni, og margir urðu forsetar einstakra ríkja, þjóðþingismenn
og löggjafar, borgarstjórar og sendiherrar. [. . .] Má því segja um þessa
heilbrigðu og langlífu ætt, að hún hafi orðið til hinna mestu þjóðþrifa,
stutt að framförum og almannaheill á því nær öllum sviðum þjóðlífsins.
Enginn maður þeirrar ættar hefir, svo menn viti, verið sakaður um glæp.
- Af þessu og öðru má marka, að mikið er í kenningum þeirra „góðkynj-
unarmanna".23
I huga arfbótasinna voru slíkar rannsóknir á ættum traust vísindi.
Að dómi Guðmundar Finnbogasonar nægðu þær til að „sýna að
ættareðlið ræður mestu um það hver maðurinn er, og að engin
skoðun er fávíslegri en sú, að allir menn séu fæddir jafnir og að
ytri kjörin ein megni að bæta ætternið". Hér tók Guðmundur
undir þá staðhæfingu mendelista að erfðaþættir en ekki umhverf-
isþættir réðu mestu um eiginleika og veraldlegan hag fólks. Hann
virðist hafa verið sammála mendelistum um að stéttaskipting
samfélagsins byggðist á arfbundnum mismun þjóðfélagsþegn-
anna, samanber eftirfarandi orð hans: „Varla mun nú þurfa að
eyða orðum að því, að fátækustu stéttirnar í stórborgunum eru til
jafnaðar ver gefnar frá náttúrunnar hendi en betur settu stéttirnar
23 Ágúst H. Bjarnason: Siðfrœði, 222-23.