Skírnir - 01.09.1998, Blaðsíða 220
490
GEIR SVANSSON
SKÍRNIR
höndum. [...] Ef konur eigast við þangað til er þeim leysir girnd, skal
bjóða þvílíka skrift sem körlum þeim er inn ljótasta hórdóm fremja
sín á millum, eða þann er framdur er við ferfætt kvikendi.34
Dauðarefsing við samkynhneigð var víðast hvar aflögð um eða eftir
aldamótin 1800. Ströng viðurlög giltu þó víða fram eftir okkar öld. Beit-
ing þeirra í Þýskalandi nasismans 1933-1944 er vel þekkt. (Allir sem lifðu
helförina af hafa fengið bætur nema samkynhneigðir enda álitnir brot-
legir við lög.) Vel var komið fram á sjöunda áratuginn þegar lög sem
bönnuðu samfarir samkynhneigðra (karla) voru lögð niður í Bretlandi. I
Skotlandi voru mök samkynhneigðra bönnuð fram til ársins 1981.35 Á
Islandi voru bannlög aflögð með lagabreytingu árið 1940 eftir sambæri-
lega breytingu í Danmörku 1938, en fram að því hljóðaði 178. lagagrein
svo: „Samræði gegn náttúrlegu eðli varðar betrunarhúsvinnu." Samræð-
isaldur samkynhneigðra og gagnkynhneigðra var samræmdur á Islandi
með lagabreytingu árið 1992 en í Bretlandi er þessi tiltekna mismunun
enn til staðar.36
Réttarhöldin illræmdu yfir Oscar Wilde árið 1895 eru til marks um
þann mikla tvískinnung í siðferði sem ríkti í Englandi á tíma Viktoríu
drottningar (1837-1901), en einnig um þá móðursýkislegu andúð og við-
bjóð sem (nýskilgreindur) homminn vakti hjá „eðlilegu" fólki. Skinhelg-
in í kynferðismálum studdist við bælingu eða kúgun sem er kannski
grundvöllurinn að eins konar geðklofa í tíðarandanum og endurspeglast
í vissum skáldverkum tímabilsins. Þetta á við um skáldsögu R. L. Steven-
son, The Strange Case of Dr. Jekyll and Mr. Hyde (1886) og skáldsögu
Wildes, The Picture of Dorian Gray (1890). Bent hefur verið á undir-
34 Tilvitnun fengin að láni frá Árna Björnssyni, Merkisdagar á mannsœvinni,
Reykjavík: Mál og menning, 1996, bls. 15. Sjá Isl. fornbréfasafn I, bls. 243.
Sveinbjörn Rafnsson, „Skriftarboð Þorláks biskups", bls. 91-94, 102,107-108.
Það að lostasemi og samband tveggja kvenna skuli tiltekið er hugsanlega ein-
stætt, því, eins og áður segir, hafa karlar í gegnum tíðina átt bágt með að sjá
hvað tvær konur gætu aðhafst kynferðislega sín á milli, eða a.m.k. átt erfitt
með að skrá slt'kan óskunda.
35 Upplýsingar um þetta eru teknar saman í „Skýrslu nefndar um málefni sam-
kynhneigðra", Reykjavík, október 1994.
36 Það gengur treglega að fá þessar breytingar í gegn og síðastliðið sumar hótaði
hópur breskra þingmanna að fara með málið fyrir mannréttindadómstól Evr-
ópu til að fá samræðisaldur samkynhneigðra lækkaðan úr 18 árum í 16 til
samræmis við það sem gildir um gagnkynhneigða. Samræðisaldur á íslandi
miðast við 14 ára aldur.