Skírnir - 01.09.1998, Blaðsíða 209
SKÍRNIR
ÓSEGJANLEG ÁST
479
einhvern hátt hafinn yfir það að hafa samkynhneigðar ástir (rétt eins og
kynlíf, hvað þá afbrigðilegt kynlíf) að aðal yrkisefni. Að staðhæfa slíkt sé
óvirðuleg smættun á skáldverki og ávirðing fyrir viðkomandi höfund. I
þessari grein ætla ég engu að síður að láta sem samkynhneigð skipti
nokkru máli í skáldsögunum þremur. Og meira en það: Hún skipti höf-
uðmáli fyrir ástir og örlög aðalpersóna, fyrir söguframvindu, föflu og
fléttu og, ekki síst, fyrir viðtökur verkanna. Skáldsögurnar eru sam-
kvæmt þeirri túlkun andófsbókmenntir sem fela í sér róttæka gagnrýni á
þá hugmyndafræði sem ræður og byggist á gagnkynhneigðum sjónar-
miðum. Það er í því ljósi sem ég freista þess að skoða/túlka/skilgreina
þessar „hinsegin sögur“ í tengslum við nálgun sem kölluð hefur verið
„hinsegin fræði“.
Hinsegin frœði
Bókmenntir gegna mikilvægu hlutverki fyrir homma og lesbíur, sem og
aðra útilokaða einstaklinga og hópa. Sýnileiki í menningarframleiðslu og
sýnileiki í þjóðfélaginu sjálfu fylgjast að með gagnvirkum hætti og er
mikilvægur sjálfsmynd og sjálfsskilningi einstaklinga. Réttindabarátta
samkynhneigðra hefur skapað rými fyrir samkynhneigðar bókmenntir -
og öfugt. Listræna tjáningu samkynhneigðar er að finna í textum frá
fyrstu tíð. Miðaldakirkja Vesturlanda á þátt í því að lítið hefur varðveist
af klassískum skáldskap um samkynhneigðar ástir en til eru ýmsar heim-
ildir og brot úr grískum og rómverskum leikritum, ljóðum og sögum,
m.a. úr smiðju Evripídesar og Petróníusar. Tjáning samkynhneigðar í
bókmenntum á „okkar“ árþúsundi, anno Domini, er víðtæk en að mestu
undir rós, allt fram undir sjöunda áratug þessarar aldar. Það þarf þó ekki
að skyggnast djúpt undir yfirborðið hjá ýmsum þekktum rithöfundum
til að finna dulinn vitnisburð um samkynhneigðar tilfinningar.7 Eftir að
frelsishreyfingum lesbía og homma óx fiskur um hrygg, í kringum 1970
(þegar rauðsokkur og kvenfrelsishreyfingar höfðu rutt brautina), byrja
samkynhneigðir fyrir alvöru að tjá sig í skáldskap og kvikmyndum.
Samtímis taka þeir að skrá eigin bókmenntasögu og rannsaka þátt sam-
kynhneigðar í bókmenntum og listum.8
7 Þessu má finna stað t.d. hjá H. C. Andersen, André Gide, Marcel Proust,
Virginíu Woolf, Radclyffe Hall og E. M. Forster.
8 Hér og víðar er m.a. stuðst við kafla um „bókmenntir og samkynhneigð“ í
„Skýrslu nefndar um málefni samkynhneigðar“, viðauki 1, bls. 78-81. Full-
trúar Samtakanna 78 í nefndinni, Guðni Baldursson og Lana Kolbrún Eddu-
dóttir, lögðu kaflann fram en höfundur efnis er Þorvaldur Kristinsson, þótt
hans sé þar ekki getið.