Skírnir - 01.09.1998, Blaðsíða 198
468
STEFÁN HJÖRLEIFSSON
SKÍRNIR
í samfélaginu, er að þeim þykir vegið að hinum góðu hugsjónum
sem ráða ferðinni í heimi lækninga og líknar. Menn eru alltaf að
hjálpa og ásetningurinn er góður - hann er óumdeilanlega, og þar
af leiðandi allt að því óumræðanlega, góður.
Svo dæmi sé tekið, færist hormónameðferð á miðaldra konum
mjög í aukana. Slíkar lækningar byggjast aldeilis á góðum ásetn-
ingi og ítarlegum rannsóknum læknavísindanna. Hormónameð-
ferðin beinist í fyrsta lagi gegn ýmsum kvillum og óþægindum
sem geta verið samfara tíðahvörfum. Og ef rétt er á haldið, getur
meðferðin ekki síður haft fyrirbyggjandi áhrif gegn beinþynn-
ingu og jafnvel kransæðasjúkdómum, en hvort tveggja veldur
miklum þjáningum og dauðsföllum meðal kvenna á efri árum.6
Tilgangurinn er með öðrum orðum góður, meðulin góð, og nið-
urstaðan til fyrirmyndar. Ævi kvenna lengist og dregið er úr
þjáningum þeirra án verulegra læknisfræðilegra aukaverkana. -
Eg tel engu að síður að áhugi lækna á hormónabúskap kvenna, og
meðferðin sem þróuð hefur verið, kunni að valda umtalsverðum
usla, eða menningarlegum aukaverkunum. Þessar aukaverkanir
eru hins vegar ósýnilegar frá sjónarhorni þeirra vísinda sem eiga
ekki aðra mælikvarða en dauðsföll og sjúkdóma.
Undir læknisfræðilegu sjónarhorni einkennist breytingaskeið
kvenna af hrörnun og sjúkdómum. Ég óttast að þeim mun meira
sem læknisfræðileg þekking á þessu æviskeiði kvenna breiðist út,
ásamt vitneskjunni um hormónameðferðina, þeim mun erfiðara
verði fyrir konur að sætta sig við að þær eldist og líkami þeirra
taki breytingum. Valda ekki auglýsingarnar um lífsþrótt æskunn-
6 Gildi hormónalyfja fyrir miðaldra konur og konur á efri árum er tíundað í
virtum, alþjóðlegum tímaritum á sviði læknisfræði um þessar mundir. Ágætar
yfirlitsgreinar um þessi efni eru meðal annars „HRT use: where do we stand
today?“ í British Journal of Clinical Practice, 50 (1996): 4-5 og „Patient-
specific decisions about hormone replacement therapy in postmenopausal
women" í Journal of the American Medical Association, 277 (1997): 1140-47.
Um það leyti sem þetta hefti Sktrnis var búið til prentunar birtist reyndar ný
rannsókn sem leiðir í ljós að minni líkur eru á að kransæðasjúkdómar verði
fyrirbyggðir með hormónameðferð en menn hafa talið um skeið. Sjá
ritstjórnargreinina „Hormone Replacement Therapy and Heart Disease
Prevention - Experimentation Trumps Observation“ í Journal of the
American Medical Association, 280 (1998): 650-51 og rannsóknina sjálfa á bls.
605-13 í sama tímariti.