Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Blaðsíða 37
TMM 2012 · 2 37
Russell Edson
Fjögur prósaljóð
Óskar Árni Óskarsson þýddi
HAUSTIð
Maður nokkur fann tvö laufblöð og fór inn í húsið og hélt á þeim í útréttum
höndum og sagði foreldrum sínum að hann væri tré.
Þau sögðu honum þá að fara út í garð svo hann skyti ekki rótum í stofunni,
því að ræturnar gætu eyðilagt teppið.
Þá sagði hann þeim að hann væri bara að grínast, ég er ekkert tré, og hann
lét laufblöðin falla.
En foreldrar hans sögðu: Nei sko, það er komið haust!
GÓðA NÓTT
Maður leggur bílnum sínum, en þegar hann er að stíga út segir bíllinn: Góða
nótt.
Varstu að tala við mig? segir maðurinn, ekki viss nema hann hafi ávarpað
sjálfan sig.
Ég sagði góða nótt, segir bíllinn.
Nú jæja, segir maðurinn, góða nótt sjálfur.
Sofðu vel, segir bíllinn.
Sofi ég vel? segir maðurinn og hlær lágt. Þakka þér fyrir …
Megi allir þínir draumar rætast, segir bíllinn.
Mig dreymir ekki alltaf vel …
Ég á við þá góðu, segir bíllinn.
Þú ert mjög hugulsamur. Af hverju hefurðu aldrei talað áður? segir mað-
urinn.
Æ, ég veit það ekki, segir bíllinn, kannski er það bara vegna þess að ég er
svolítið einmana í kvöld.
Ég kannast við þetta, stundum hellist þessi tilfinning yfir mig, segir mað-
urinn.