Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Page 60
B r y n h i l d u r Þ ó r a r i n s d ó t t i r
60 TMM 2012 · 2
þau á heimilinu. Foreldrar þeirra eru virkir þátttakendur í lestraruppeldinu
og láta það ekki skólanum eftir. Foreldrarnir lesa sjálfir bækur fyrir framan
börnin. Foreldrarnir lesa upphátt fyrir börnin – og byrjuðu snemma á því.
Börnin hafa vanist ferðum á bókasafn og í bókabúðir og margar bækur eru
á heimilinu.22
Foreldravandamálið
Lestrarhestar hafa nær undantekningarlaust fengið lestraruppeldi frá því þeir
voru smábörn. Það kemur líka í ljós að sterkt samband er milli lestrarvenja
9–12 ára barna og notkunar barnabóka í uppeldi þeirra.23 Það er því vert að
staldra við og setja foreldrana undir smásjána í stað barnanna. Við hljótum
að þurfa að spyrja hvaða foreldrar það eru sem sinna lestraruppeldinu og
hvernig við náum til hinna sem gera það ekki.
Það kemur ef til vill ekki á óvart að menntun foreldra skiptir máli.
Unglingar sem eiga bæði föður og móður með háskólapróf eru næstum
tvöfalt líklegri til að lesa bækur daglega en þeir sem eiga foreldra með grunn-
skólapróf. Hér skera okkar fjölskyldur sig ekki úr í hópi 35 Evrópulanda.
Athyglisvert er hins vegar að efnahagsleg staða hefur önnur áhrif á áhuga
á bóklestri hérlendis en í samanburðarhópnum. Börn efnaðra foreldra eru
ólíklegri til að lesa bækur daglega, jafnvel þótt foreldrarnir séu menntaðir.
Þannig virðist aukin menntun foreldra auka líkurnar á því að börnin lesi
bækur daglega en efnahagsleg staða umfram það minnka líkurnar á dag-
legum bóklestri. Þessu eru þveröfugt farið annars staðar í Evrópu þar sem
bættur efnahagur skilar sér í auknum lestraráhuga.24 Áður hefur verið sýnt
fram á sambærilega sérstöðu Íslands en Ísland var eina þátttökulandið í PISA
2000 þar sem auknar veraldlegar eigur höfðu neikvæð áhrif á lesskilning.25
Í náttúrufræðiprófum PISA 2006 kom fram sams konar neikvætt samband
milli efnislegra gæða og námsárangurs á Íslandi. Þar kom einnig fram að
efnisleg gæði og veraldlegar eigur eru meðal þess sem er marktækt betra á
heimilunum á Íslandi en á Norðurlöndunum og öðrum OECD-löndum.26
Það er ekki síður athyglisvert að þáttur kynjanna er misjafn þegar að
lestraruppeldinu kemur. Mun fleiri ungir lestrarhestar nefna móður sína
en föður þegar spurt er hverjir hvetji þá helst til lestrar.27 Reyndar er einnig
heilmikil kynjaslagsíða á svörum barnanna þegar aðrir lestrarhvetjendur eru
teknir með, því næst á eftir foreldrunum nefna börnin kennara, skólasafns-
kennara og annað bókasafnsstarfsfólk og síðan vini sína og aðra ættingja.
Það þarf ekki að skoða þennan lista lengi til að átta sig á því að konur eru hér
mun fjölmennari en karlar. Hjá flestum börnum ættu báðir foreldrar að geta
verið jafnsýnilegir í lestraruppeldinu, hvort sem þeir búa saman eða ekki.
Þess vegna vekur athygli hversu rýr þáttur feðranna er. „Pabbi les ekki, hann
er alltaf í tölvunni,“ sagði einn af krökkunum sem rætt var við í rannsókn á
ungum lestrarhestum á Akureyri, sumarið 2009.28 Barnið sagði hins vegar