Skírnir - 01.01.1956, Page 10
8
Steingrímur J. Þorsteinsson
Skirnir
aldar. Við eigum þrennt — og aðeins þrennt — sjálfstæði
okkar til réttlætingar: legu landsins fjarri öðrum þjóðlöndum,
en þó einkum tungu okkar og bókmenntir. Engin þjóð önnur
hefur varðveitt tungu sína svo lítt breytta, að barn, sem lært
hefur að lesa, getur skilið það, er samið var fyrir 800 árum.
Á 13.öld sköpuðu Islendingar merkustu bókmenntir í allri
Evrópu. Og nú höfum við enn í eina öld og aldarþriðjungi
betur átt nýtt blómaskeið bókmennta okkar, sem hófst með
miklum ljóðskáldum, Bjama og Jónasi, en síðasta aldarfjórð-
ung hafa höfundar óbundins máls haft þar forustu, þótt lengri
væri aðdragandinn. Vissulega verða Islendingar þar lengi
minnugir stórskálda sinna og beztu rithöfunda. En — líkt og
segir í greinargerð akademíunnar sænsku — hefur Halldór
Kiljan Laxness hafið aftur til vegs — á grundvelli fornrar
og órofinnar arfleifðar — hina miklu, íslenzku sagnalist, til
þeirrar fullnustu, að fyrir hana og þá hetjusögu, sem hann
hefur nú þegar — væntanlega nærri miðjum starfsaldri —
samið með list sinni og lífi sínu, hafa honum í dag verið veitt
æðstu opinberu bókmenntaverðlaun veraldar. Við Islendingar
hljótum flestum fremur að fagna því, að andleg afrek ein —
án nokkurs tillits til höfðatölu, heimsyfirráða eða ríkidæmis
— hafa hér ráðið þessu mati. Enda er Laxness tvímælalaust
meðal fjölhæfustu og fremstu rithöfunda okkar á óbundið
mál frá upphafi vega til þessa dags — og einn af ágætustu
skáldsagnahöfundum, sem nú eru uppi í heiminum.
Öllum sönnum Islendingum hlýtur að þykja vænt um, að
Laxness hefur með þessum hætti aukið hróður þjóðar sinnar
út um allar jarðir. En vænst þykir okkur þó um hann fyrir
það, sem hann er okkur og verður okkur sjálfum.
Lg vil ljúka þessu máli með því að votta þakkir og virð-
ingu Sænsku akademíunni og Halldóri Kiljan Laxness og
árna honum og íslenzku þjóðinni heilla vegna þessarar verð-
skulduðu viðurkenningar.