Skírnir - 01.01.1956, Page 92
90
Páll S. Árdal
Skírnir
setningar hafa merkingu, var of þröngur. Þetta sést greini-
lega, ef litið er á verk G. E. Moore, en hann gagnrýnir sjálf-
ur ýmsa heimspekinga fyrir að misskilja, hvað orðið „góður“
merkir.
II. Ivenning Moores um merkingu orðsins ,,góður“.
Moore telur, að siðfræðingum beri að svara tveimur spurn-
inum: 1) Hvað merkir orðið „góður“? 2) Hvaða hlutir eru
góðir? Síðari spurningin er tvíræð, því að við köllum ýmislegt
gott einungis vegna þess, að það leiðir til góðs, en ef við nú
réttlætum gerðir okkar með því að benda á, að þær leiði til
góðs, hljótum við að viðurkenna, að sumir hlutir hafa sjálf-
stætt gildi, en ekki einungis notagildi. Notagildi hefur það,
sem leiðir af sér eitthvað, sem hefur sjálfstætt gildi, en við
verðum að hafa einhver ráð til að ákveða, hvað hefur sjálf-
stætt gildi, ef við eigum að geta fundið notagildi hlutanna.
Enn fremur er nauðsynlegt að vita ýmislegt um orsakir og
afleiðingar. Ef heilbrígði hefur sjálfstætt gildi, hefur líferni,
sem leiðir til aukinnar heilbrigði, notagildi. En ef við vitum
ekki, hvað hætir og hvað rýrir heilsuna, vitum ekki afleið-
ingar mismunandi lifernis, getum við ekki ákveðið, hvaða
lífshætti við eigum að temja okkur.
Moore virðist álíta, að orðið „góður“ merki eiginleika, sem
sé sameiginlegur öllu því, sem hefur sjálfstætt gildi. Er við
notum orðið til að gefa til kynna, að eitthvað hafi notagildi,
erum við að benda á, að það leiði til einhvers, sem hefur
þennan eiginleika. Þessi eiginleiki er óskilgreinanlegur. Þegar
orðið „góður“ er notað til að gefa til kynna, að eitthvað hafi
sjálfstætt gildi, merkir það þá óskilgreinanlegan eiginleika,
sem sumir hlutir hafa. Við getum aftur á móti skilgreint
„hið góða“, það, sem gott er, með því að telja upp allt, sem
hefur þennan óskilgreinanlega eiginleika. Rétt er nú að benda
á ástæðurnar fyrir skoðunum Moores á merkingu orðsins
„góður“.
Moore telur skilgreiningu vera upptalningu á hlutum þeirr-
ar heildar, sem skilgreina á. Lýsing á hesti, upptalning á hlut-