Skírnir - 01.01.1956, Page 281
Skírnir
Ritfregnir
279
nýtur jurtin bezt skins og skúra. Listamaðurinn og ljóðið lúta sömu lög-
um, enda kemst Þorgeir svo að orði á einum stað.
Blómið visnar,
berist því enginn safi.
Og skorti hugdögg,
hjartað gisnar
og fellur í stafi.
Þóroddur Guömundsson.
SigurSur Jónsson frá Brún: Rætur og mura. Bókaútgáfan Norðri.
Reykjavik 1955.
Þetta er önnur kvæðabók höfundarins. Sú fyrri hét Sandfok og kom
út árið 1940. Hún fjallaði einkum um öræfi og fjallaferðir, hesta og lif
i óbyggðum. Sandfok vakti ekki þá athygli, sem það verðskuldaði. Bók sú
var að nokkru sérstæð. Af blöðum hennar andaði viða gusti afrétta og
jökla, en undir niðri var falinn ylur jarðarbarnsins, kærleiki til samferða-
fólks og hesta, samúð með öllu lífi fjallanna, allt frá öræfagróðri til úti-
legumanna, tryggð við heiðavötn, afdali, ár og fjallvegi. En ósagða sögu
eirðarlauss hugar mátti víða lesa milh lína.
1 Rótum og muru kemur fram önnur mynd af skáldinu, þegar fram í
bókina sækir. Hún skiptist í fimm flokka. Sá fyrsti nefnist Land og lei&ir.
Hann er svipaðs efnis og kvæðin í Sandfoki, en varla eins ferskur. Fæst
kvæðin í þessum flokki eru nægilega algild, táknræn eða hnitmiðuð, til
þess að þau hefjist yfir stað og stund og verði fleyg. 1 kvæðum eins og
Vppblástur og Sinubál tekst skáldinu þó að gefa efninu búning, sem hæfir.
Við lestur næsta flokks, sem heitir Manvísur, kynnumst vér höfundinum
persónulegar en áður og frá nýrri hlið. Það er að vísu gaman, eins og
kynni af mönnum eru oftast, séu þeir rétt skildir. Og hér skortir ekkert
á einlægnina. En þó finnst mér skáldinu ekki takast upp, eins og eg hefði
vænzt. Eg veit varla, hvað einkum skortir, ef til vill mýkt. Minnisstæð-
asta kvæðið í þessum flokki hefur orðið mér Gamalárskvöld, gætt seið-
magni enduraiinningarinnar, en allt annað útilokað. Endurtekningin eða
stefið eykur áhrifin. Næsti þáttur, Lifendur og látrúr, hefur á sér tæki-
færissnið og á því takmarkað erindi. Bezta kvæðið í þeim þætti þykir
mér Til húsfreyjunnar á bænum, látlaust ljóð og vel kveðið, efalaust
gert í sérstöku tilefni, en almenns efnis um leið og maklegt.
Kem eg þá að þeim þætti bókarinnar, sem er langveigamestur og olli
því, að hún er gerð hér að umtalsefni. Sá kafli heitir ÆÖrur. Þó að í þess-
um flokki gæti mikillar bölsýni — og ef til vill einmitt vegna þess —,
svo að líkja má við Kristján Fjallaskáld, hefur Sigurður frá Brún eigi
annars staðar skyggnzt svo djúpt sem í nokkrum kvæðum af þessu tagi.
Er varla ofmælt, að sum þeirra séu andvörp frá sundurkrömdu hjarta, til
dæmis kvæðið Bíddu. önnur eru skriftamál eða játningar iðrandi synd-