Skírnir - 01.09.1998, Síða 73
SKÍRNIR
VINNUDÝRKUN, MEINLÆTI
343
Sú kenning hefur lengi verið, og er enn, umdeild og misskilin sem
tilraun til að rekja uppruna kapítalismans til huglægra þátta mót-
mælendasiðarins. Weber beindi hins vegar ekki sjónum sínum að
uppruna kapítalismans sem slíks, heldur að því hvernig hann
þróaðist í það gífurlega skipulega og rökvædda kerfi sem við
þekkjum í dag. Weber telur að þar hafi valdið mestu að mótmæl-
endasiðurinn mótaði kerfisbundna yfirvegun um árangursríkustu
leiðirnar til að ná því fyrirfram gefna markmiði að safna auði, í
stað þess að velta vöngum yfir gildi markmiðsins sjálfs, en slíkan
hugsunarhátt kennir Weber við markmibsrökvísi (Zweckratio-
nalitat).5 Megináhugi Webers beindist því að uppruna þessa
hugsunarháttar, eða með öðrum orðum, að tilurð þeirrar mann-
gerðar sem einkennist af honum, og að viðhaldi hennar með því
verðmætamati sem rökvæddur kapítalismi byggir tilvist sína á.
Þetta hefur Weber sjálfur tekið skýrt fram.6 Þannig væri nær lagi
að líta á kenningu hans sem sifjafræði, á borð við þá er Friedrich
Nietzsche lagði grunninn að og hefur í seinni tíð einkum verið
þróuð af Michel Foucault. Markmið slíkrar sifjafræði er fyrst og
fremst að sýna fram á tilhæfuleysi, jafnvel fáránleika, ýmissa þátta
sem tilheyra viðhorfum okkar, gildismati, venjum og lífsmáta, þar
sem upprunaleg ástæða þeirra sé ekki lengur fyrir hendi. Weber
leiðir sem sagt líkum að því að með siðaskiptunum hafi viðhorf
manna til hversdagslegra þátta mannlífsins á borð við vinnu,
afþreyingu og mannleg samskipti verið sett í spennitreyju mark-
miðsrökvíss hugsunarháttar sem leggur allt í sölurnar fyrir fjár-
hagslegan ávinning. En áður en ég sný mér að siðaskiptunum,
5 Um markmiðsrökvísi, sjá Max Weber: Wirtschaft und Gesellschaft. Grundriss
der verstehenden Soziologie. 5. útg. (Túbingen: J. C. B. Mohr (Paul Siebeck),
1972), bls. 12-13.
6 Sjá Johannes Winckelmann (ritstj.): Die protestantische Ethik II. - Kritiken
und Antikritiken (Gútersloh: Gútersloher Verlagshaus Gerd Mohn, 1978),
bls. 303. Á öðrum stað nefnir Weber að rannsókn Werners Sombart, Der
moderne Kapitalismus, sem út kom tveimur árum á undan umdeildu riti
Webers, hafi gert áhrif mótmælendasiðarins á uppgang kapítalismans að „of
þekktri staðreynd“ til að þörf væri á frekari áréttingum um það efni. Sjá Wil-
helm Hennis: Max Webers Fragestellung. Studien zur Biographie des Werks
(Túbingen: J. C. B. Mohr (Paul Siebeck), 1987), bls. 16.