Skírnir - 01.09.1998, Side 74
344
GEIR SIGURÐSSON
SKÍRNIR
mun ég útlista stuttlega það vinnugildismat sem virðist hafa ríkt í
vestrænni menningu fyrir þann örlagaríka atburð.
Mig langar að byrja á Forn-Grikklandi, sem heimspekimenntað
fólk lítur gjarnan á sem vöggu vestrænnar menningar. Viðhorf
Forn-Grikkja til veraldlegrar vinnu var almennt neikvætt. Þrátt
fyrir annars ólíka heimspekilega afstöðu voru Platón og Aristó-
teles sammála um að líkamleg störf væru frjálsum mönnum
óverðug og einungis nauðsynlegt böl til að afla mönnum lífsvið-
urværis en veitti þeim hvorki hamingju né þroska. Þannig skiptir
Platón íbúum draumaríkis síns, „Fögruborg“, upp í þrjár stéttir:
Hina fámennu „yfirstétt" heimspekinganna, sem eru undanþegnir
líkamlegri vinnu svo þeir geti íhugað hinar eilífu frummyndir og
stjórnað og sett lög í krafti þekkingar sinnar á þeim; hina fjöl-
mennari „millistétt“ varðliðanna, sem sjá til þess með vopnavaldi
að lögum sé framfylgt; og loks hina langfjölmennustu „öreiga-
stétt“, ef mér leyfist að beita svo marxísku málfari, bændur, smiði
og aðra slíka, sem eru fjærst heimspekingunum og stunda nauð-
synleg líkamleg störf til að fæða samfélagið og sjá um að viðhalda
því með barnaframleiðslu.7 Einsog glögglega sést stendur „Fagra-
borg“ fyllilega undir nafni, að minnsta kosti fyrir valdagráðuga
heimspekinga.
Að sama skapi gerði Aristóteles fremur pínlega tilraun til að
réttlæta þrælahald í lýðræðisríki sínu á þeim forsendum að það
endurspeglaði reglu náttúrunnar, þar sem þrælar væru ekki eigin-
legir menn, heldur fremur í líkingu við vinnudýr eða jafnvel forn-
gríska útgáfu sjálfvirkra heimilistækja. „Þræll er eign sem gædd er
lífi“, segir Aristóteles, og „verkfæri sem tekur öllum öðrum verk-
færum fram“.8 Helsti kostur þrælsins er sá að hann sinnir störfum
sínum upp á eigin spýtur, enda tekur Aristóteles fram að ef skutla
vefstólsins myndi vefa og nöglin snerta strengi lýrunnar án þess
að hönd kæmi nærri, þyrftum við ekki á þrælum að halda. Sem
7 Þessa þrískiptingu samfélagsins og samsvarandi vanþóknun á líkamlegri vinnu
ber á góma hér og þar í Ríkinu eftir Platón, en sjá þó sérstaklega 397e, 429d-e
og 519d-520c.
8 Aristóteles: Stjórnspekin (Politica), 1253b-1255a.