Skírnir - 01.09.1998, Page 84
354
GEIR SIGURÐSSON
SKÍRNIR
kleift að finna vinnudýrkuninni enn eina réttlætingu. Helsta
skemmtun eða afþreying landsmanna er orðin sjálf neyslan,26 en
þar með er komin upp sú þversagnarkennda staða að taka þarf á
sig enn meiri vinnu svo unnt sé að skemmta sér. Ur vinnuseminni
og neysluhyggjunni verður þannig til vítahringur þar sem hvort
um sig kallar á aukningu hins.
Hins vegar leynist sjálfsafneitunin grunnt undir yfirborði
eyðsluseminnar. Rifjum upp að meinlæti mótmælendasiðarins fól
ekki í sér örbirgð klausturlifnaðarins, heldur beindist þvert á
móti að auðsöfnun og „skynsamlegum“, þ.e. arðbærum eða var-
anlegum, fjárfestingum. Og fram að þessu hefur það tíðkast á Is-
landi að ung pör leggist árum saman sjálfviljug í vinnuþrælkun á
meðan þau standa að framleiðslu fjölskyldu sinnar. Þá hætta þau
öllu „rugli“, einsog sagt er, og taka þess í stað að eyða öllum tíma
sínum í vinnu svo þau geti fjárfest í efnislegum „gagnlegum“
hlutum, eignast íbúð og jafnvel byggt sér hús, keypt bíl(a) og
ógrynnin öll af „nauðsynlegum“ rafmagnstækjum og tólum, en
skera mjög við nögl útgjöld til „stundlegra lífsgæða“ á borð við
skemmtanir, ferðalög og menningarneyslu.27 Form þessa tíma-
bundna meinlætalifnaðar er í íslensku samfélagi svo staðlað og
ósveigjanlegt að þeir sem hvika frá því eru litnir hornauga - að
minnsta kosti verður þeim seint hampað fyrir að hlúa að æðstu
dygð þjóðarinnar, „dugnaðinum“ - en þar að auki er þeim gert
erfitt uppdráttar í samfélaginu þar sem formgerð þess, til dæmis
hvað varðar húsnæðismál, er sniðin að fylgni við slíkt „pró-
26 Sbr. tíðar „neysluhátíðir" stórmarkaða og verslunarmiðstöðva á Stór-Reykja-
víkursvæðinu.
27 Mér er ekki kunnugt um að á Islandi hafi verið gerðar rannsóknir á mismun-
andi lifnaðarháttum og neysluvenjum kynslóðanna og hef því engar tölfræði-
legar staðreyndir til að styðjast við. Hins vegar sýnist mér að lífsmáti sem
þessi eigi sífellt minna upp á pallborðið hjá yngri kynslóðum þjóðarinnar.
Áhugavert væri að líta niðurstöður slíkrar rannsóknar, en til gamans langar
mig að benda á forvitnilega grein sem birtist í Newsweek og fjallar um þau al-
geru umskipti sem orðið hafa á viðhorfum „68-kynslóðarinnar“ í Frakklandi.
Samkvæmt greinarhöfundum snerust „hipparnir“ flestir frá hugsjónum sínum
til öfgakenndrar efnishyggju og eru nú helstu viðskiptajöfrar landsins úr hópi
þeirra sem fyrir 30 árum mótmæltu kapítalisma, misskiptingu og arðráni á
þeim er minnst mega sín (Christopher Dickey og Judith Warner: „Let’s not
change the world“. Newsweek, 1. júní 1998, bls. 18-22).