Skírnir - 01.09.1998, Page 91
SKÍRNIR
KONUNGASAGAN LAXDÆLA
361
Ekki aðeins Laxdæla er „kvenleg" heldur allur riddaraheimurinn.
Karlmennskan býr hins vegar í norðrinu og sér í lagi á Islandi.
Þó að allt erlent og einkum allt suðrænt kunni að virðast
kvenlegt frá sjónarhorni Islendings er ólíklegt að miðaldaher-
menn sem skemmtu sér við riddarasögur og ævintýri hafi talið sig
kvenlega. Ekki er heldur víst að íslenskir höfðingjar og vígamenn
sem höfðu hinn nýja smekk á 13. öld tækju undir með A. C.
Bouman að lýsing Kjartans hæfði betur fagurri ungri stúlku.7
Hvergi í sögunni er gefið til kynna að eitthvað sé kvenlegt við
Laxdæli. Skoðun Boumans á því hvað hæfir körlum og konum
þarf ekki að merkja að hetjur Laxdælu hafi þótt kvenlegar. Hug-
tökin karlmannlegt og kvenlegt hafa ekki fasta merkingu, óháð
stund og stað, þó að það virðist iðulega hald manna. Færa þarf
önnur rök en eigin smekk fyrir því að sagnaritara Laxdælu hafi
þótt hinir kurteisu og gullskreyttu Laxdælir síðri karlmennsku-
ímyndir en t.d. Egill Skallagrímsson.
Onnur túlkun á áherslu Laxdælasögu á útlit, búning og glæsi-
brag Laxdæla er að með henni sé dreginn fram munur ytri glæsi-
leika og innra tóms. Einar Ólafur Sveinsson benti á sínum tíma á
að í Laxdælasögu sé „getið fríðleika, en ekki vaskleika, frægðar af
ferð, en ekki stórvirkjum".8 Þessi munur á útliti og verkum Lax-
dæla býður heim þeirri túlkun að Laxdælasaga sé írónísk, enda
hefur ekki skort slíkar túlkanir á sögunni. Robert Cook hefur
þannig bent á að þótt ágæti karlhetjanna sé lýst fjálglega styðji
verk þeirra í sögunni ekki þá túlkun heldur séu konur þar ráð-
andi.9 Þó að hann hafni feminískri túlkun á sögunni fetar hann
þar á sinn hátt í fótspor Helgu Kress sem taldi að kvenleg upp-
reisnargirni og óánægja með stöðu konunnar á 13. öld væru að
7 „better fitting for a beautiful young girl“ (Bouman. Patterns in Old English
and Old Icelandic Literature, 123). Hann vitnar í kannanir um að í Lax-
dælasögu séu lýsingarorð sem vísa til fríðleika notuð 34 sinnum, 20 sinnum um
karla en 14 sinnum um konur. Athyglisverð er raunar sú ábending Boumans að
Kjartan og Hallgerður langbrók (föðursystir hans) séu ein um það í íslendinga-
sögum að hafa hár fagurt sem silki en hæpið að draga of miklar ályktanir af.
8 Einar Ólafur Sveinsson. Formáli, xviii.
9 Cook. „Women and Men in Laxdæla saga“, 34-57. Áður hafði Bouman
(Patterns in Old English and Old Icelandic Literature, 113-25) bent á hið