Skírnir - 01.09.1998, Síða 136
406
SVEINN EINARSSON
SKÍRNIR
og hermt eftir og þótti það kærkomið í fásinninu. Hér bauðst allt
annars konar skemmtun, sem auk þess kallaði á almenna þátttöku
og sneri jafnframt að hinum félagslega þætti, þeim þreifingum
sem voru í gangi að búa til nýtt samfélag.
En af hverju verður leikstarfsemin fyrir valinu, fremur en aðr-
ar listgreinar? A því eru ýmsar skýringar. I fyrsta lagi kallar hún á
hóp fólks til samstarfs, eins og áður segir, og krefst á þessu stigi
ekki sérmenntunar. Auðvitað reynast menn misjafnlega lagaðir til
leiks og sumir hafa til að bera það sem kallað er náttúrugáfur í
þeim efnum. En til tónleika efna menn ekki nema eftir langt nám
og strangan undirbúning, myndlist er viðvaningsleg, þótt drátt-
hagir menn séu að verki, nema æfing fylgi, skáldið yrkir eitt
heima við skrifborð sitt eða hvar það nú finnur næðisstund til. Ut
í leikinn geta menn hins vegar skellt sér af gagnrýnislítilli gleði og
það litla samfélag, sem hver sýning myndar innbyrðis meðal að-
standenda og síðan við áhorfendur, verður mörgum mikilsverð
upplifun.
Hinu má heldur ekki gleyma, að liður í þjóðernisbaráttunni
var að sýna að við gætum staðið í báða fæturna jafnt í efnalegu
sem menningarlegu tilliti. Um aldamótin gerist það að Alþingi
viðurkennir gildi bókmennta fyrir samfélagið með því að veita
nokkrum höfundum skáldalaun. Á sama tíma eru frumkvöðlar í
tónlist, myndlist og arkitektúr að leita sér formlegrar skólunar er-
lendis og leggja síðar grunn að nútímalist á Islandi, sambærilega
við það sem erlendar þjóðir voru orðnar vanar. Leikstarfsemin
verður einnig þáttur í þessari menningarlegu sjálfstæðisviðleitni.
Sá mikli áhugi sem birtist í allri þeirri áhugaleikstarfsemi sem hér
hefur verið rakin, verður einn hvati þess að forystumenn Leik-
félags Reykjavíkur fara á sama tíma að gera þær kröfur í verk-
efnavali og leikflutningi, að starf þeirra sé einnig tekið gilt sem
listsköpun, sambærileg við leiklist erlendis (íslensku leikhús-
mennirnir leituðu sér menntunar erlendis, en settust ekki form-
lega á skólabekk eins og tónlistar- og myndlistarmennirnir).
Á um 60 ára tímabili, fram til þess að ísland verður fullvalda
ríki, á sér stað svo útbreidd og umfangsmikil leikstarfsemi áhuga-
manna á íslandi, að einstakt er. Að henm kemur fólk úr öllum
stéttum og félagasamtök af flestum toga standa fyrir henni. Þessi