Skírnir - 01.09.1998, Side 153
SKÍRNIR
,KYNBÆTT AF ÞÚSUND ÞRAUTUM'
423
mörgum tilvikum voru helstu talsmenn stefnunnar mikilsvirtir
menntamenn, svo sem læknar, líffræðingar, erfðafræðingar og
félagsvísindamenn, sem í krafti sérfræðiþekkingar sinnar gátu
mótað viðhorf almennings og stjórnvalda í viðkomandi löndum.
Stofnuð voru alþjóðleg samtök mannkynbótasinna og var fyrsta
alþjóðlega ráðstefnan um þetta efni haldin í London árið 1912.
Markmið mannkynbótastefnunnar var í aðalatriðum tvíþætt:
1. Jákvæðar mannkynbœtur, sem miðuðu að því að „hæfir"
þjóðfélagsþegnar ættu sem flest börn.
2. Neikvœðar mannkynbcetur, sem miðuðu að því að hinir
„óhæfu“ ættu sem fæst börn.
Samkvæmt skilgreiningu mannkynbótasinna töldust einstaklingar
úr miðstéttum og hástéttum „hæfari“, en lágstéttarfólk fæddist
„óhæft“. Óhæfastir voru sjúkir og ýmiss konar „undirmálsfólk“,
svo sem vangefnir, betlarar, vændiskonur og drykkjumenn.
Einnig þurfti að vernda þjóðina gegn utanaðkomandi hættu sem
fólst í blöndun við „óæðri“ kynþætti. Að þessu leyti tengdist
mannkynbótastefnan víða þeirri kynþáttahyggju sem átti umtals-
verðu fylgi að fagna í Evrópu og Norður-Ameríku á fyrri hluta
aldarinnar.
Hugmyndafræðilegar rætur mannkynbótastefnunnar má rekja
til þróunarkenningar Charles Darwin (1809-1882) og félagslegs
darwinisma manna á borð við Herbert Spencer (1820-1903). Nýj-
ar uppgötvanir í náttúrufræði og erfðafræði og tilkoma nýrra
fræðigreina, svo sem tölfræði, sálfræði, félagsfræði, uppeldisfræði
og mannfræði, urðu mikilvægur aflgjafi stefnunnar. Nítjánda öld-
in var, sem kunnugt er, tímabil róttækra hugarfarsbreytinga. Trú-
in á Guð sem gangráð sköpunarverksins dvínaði en þess í stað
sannfærðust menn um algildi náttúrulögmála, díalektíska þróun
og framfarir, jafnt í náttúrunni og mannlegu samfélagi. Á sama
tíma litu hins vegar margir vestrænir hugsuðir svo á að öllu færi
hnignandi, jafnvel manninum sjálfum. Mannkynbótastefnan
þreifst þannig á tvennu: trú manna á að hún gæti stuðlað að arf-
bornum gæðum og gjörvileika hvítra manna og kenningum um
líffræðilega hnignun eða úrkynjun þeirra.