Skírnir - 01.09.1998, Page 159
SKÍRNIR
„KYNBÆTT AF ÞÚSUND ÞRAUTUM'
429
hverjir væru vel og hverjir illa ættaðir vísuðu íslendingarnir
gjarnan í erlendar rannsóknir sem áttu að sýna, með vísindalegum
hætti, fram á góðkynjun eða úrkynjun ætta eða þjóðfélagshópa. I
þessum rannsóknum helgaði tilgangurinn oft meðalið.17 Umfjöll-
un bandaríska sálfræðingsins Henry H. Goddard um Kallikak-
ættina er til marks um það, en hún varð eitt af þekktustu dæmum
arfbótastefnunnar um arfgengi fábjánsku og siðferðisgalla.18
Agúst H. Bjarnason rakti þetta dæmi í Siðfrœði sinni til að menn
sæju að arfbótasinnar færu ekki „með staðlausa stafi“:
Maður er nefndur Martin Kallikak. Fór hann sem óbreyttur liðsmaður í
þrælastríðið (1861-65) og gat þá barn við konu nokkurri ónefndri, er var
fábjáni. Frá þeim eru nú komnir 480 afkomendur, sem eru flestir enn á
lrfi. 143 þessara manna eru fábjánar, en aðeins 46 taldir full-heilbrigðir;
um afganginn er ókunnugt. 36 þessara manna hafa verið óskilgetnir; 33
hafa orðið saurlífismenn og skækjur, 24 ofdrykkjumenn; 8 hafa lifað á
því að halda illræmd hús og 3 hafa verið flogaveikir. - Þegar Kallikak
kom heim úr stríðinu, sneri hann við blaðinu og kvæntist konu af heil-
brigðum og góðum ættum. Eru nú 496 afkomendur þeirra enn á lífi.
Hafa aðeins 2 þeirra orðið drykkjumenn og 1 þeirra saurlífismaður; en
öll hin börn þeirra og afkomendur hafa orðið mætismanneskjur, læknar,
lögfræðingar, kennarar, kaupsýslumenn og bændur, karlar og konur, er
reynst hafa hinar nýtustu manneskjur á svo að segja öllum sviðum fé-
lagslífsins. Nú hafa báðar þessar ættir lifað í sama landi, við sömu eða
svipuð lífsskilyrði og í svipuðu andlegu andrúmslofti, þótt heimili annars
ættbogans hafi sennilega verið mun lakari en hins. Þeim skeikaði þó
aðallega í einu, að þeir áttu hvor sína ættmóðurina. En þetta var nóg til
þess, að það er eins og „ólánið" hafi markað svo að segja hvern einstakl-
ing annarar ættarinnar, en því sem næst ekki snert við hinni. Sýnir þetta,
að það sem vér nefnum „ættarólán" og „ættarlán" eru kynfylgjur, sem á
einhvern hátt eru tengdar arfberunum.19
17 Um ýmsar rannsóknir mannkynbótasinna sjá t.d. Kevles: In the Name of Eu-
genics og The Wellborn Science.
18 Paul: Controlling Human Heredity, 50-54; The Kallikak Family: A Study in
the Heredity of Feeble-Mindedness (1912). Þetta var rannsókn á erfðum and-
legrar tornæmi („fábjánsku") í fjölskyldu undir dulnefninu Kallikak. Hún var
tólf sinnum gefin út (síðast árið 1939). Tilvísanir í hana voru algengar á árun-
um 1920-40 í fræðiritum og fræðigreinum, skólabókum og ýmsum tímaritum
alvarlegs eðlis eða til afþreyingar. Rannsóknin byggist hvorki á áreiðanlegum
gögnum eða upplýsingum né stenst kröfur um fræðilega úrvinnslu þeirra.
19 Ágúst H. Bjarnason: Siðfrœði, 222.