Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Blaðsíða 57
TMM 2012 · 2 57
Brynhildur Þórarinsdóttir
Lestrarhestamennska
heilnæmt og heillandi fjölskyldusport
Umræðan um bóklestur eða bókleysi íslenskra barna hefur verið áberandi
á undanförnum mánuðum. Einhvern veginn kvisaðist það allt í einu út
að bókaþjóðin væri að missa áhugann á lestri. Á sama tíma og fulltrúar
þjóðarinnar stóðu keikir í huggulegum heimilislestrarbásnum í Frankfurt
kúrðu krakkarnir í herbergjunum sínum heima á Íslandi, horfðu á sjón-
varpið og spiluðu tölvuleik í símanum sínum. Þriðja hvert barn hafði ekki
opnað bók sér til yndis undanfarinn mánuð. Í hverjum 25 barna bekk í
grunnskólunum leyndist aðeins eitt barn sem hafði lesið mikið.
Dvínandi lestraráhugi íslenskra barna uppgötvaðist ekki skyndilega núna í
haust. Tölur um minnkandi bóklestur skólabarna hafa lengi legið fyrir, til
eru samfelldar mælingar á bókaáhuga barna og unglinga frá 1968–2009 sem
sýna stöðuga hnignun frá 1979–2003 en svolítinn viðsnúning 2009.1 Fyrir
réttum tuttugu árum varaði upphafsmaður þessarar rannsóknar, Þorbjörn
Broddason, við því að hér sprytti upp ólæs eða hálflæs minnihluti innan um
bókaþjóðina.2 Fleiri rannsóknir hafa leitt í ljós sömu þróun, til að mynda
sýndi Guðný Guðbjörnsdóttir fram á að unglingar læsu minna í bókum 2005
en 1993 og 1965, og að þekking þeirra á bókmenntum færi minnkandi.3 Það
gerðist hins vegar eitthvað á síðasta ári sem varð til þess að áhugi vaknaði á
vandanum. Sennilega voru það niðurstöður um slakan lesskilning reykvískra
drengja sem kveiktu á viðvörunarljósunum.4 Í það minnsta hefur frasinn
„fjórði hver piltur les ekki sér til gagns við lok grunnskóla“ verið endurtekinn
aftur og aftur í fjölmiðlum.5 Íslensk málnefnd ályktaði um lestur barna á
degi íslenskrar tungu og stóð fyrir málþinginu „Æska í ólestri, mál okkar
allra“6 og aðgerðahópur rithöfunda, „Lesbjörgunarsveitin“ eða „Hjálparsveit
skálda“, tók til sinna ráða. Sveitin stóð fyrir fjölmennu málþingi í Norræna
húsinu 21. janúar sl. undir yfirskriftinni Alvara málsins.7 Höfundur þessarar
greinar ræddi þar um lestrarhestamennsku, íþróttina bóklestur út frá eigin
rannsóknum og annarra. Markmiðið var að vekja athygli á þeirri þekkingu
sem til er á lestrarvenjum barna og bakgrunni ungra lestrarhesta.