Tímarit Máls og menningar - 01.05.2012, Page 123
Á d r e p u r
TMM 2012 · 2 123
aðstæður í öðrum löndum yfirleitt.
Þeirra eina pólitíska áhugamál og við-
mið á alþjóðavísu virtist vera hvort
menn styddu stefnu Sovétríkjanna í einu
og öllu. Samt var áhugavert að sjá og
finna hvernig var einsog ljóstírur kvikn-
uðu í hugum sumra Tékka og nokkurra
annarra stúdentafulltrúa þá skömmu
hríð sem frelsisaldan í Ungverjalandi
virtist ætla að fá að hafa sinn gang
haustið 1956. En þær tírur dofnuðu
fljótt.
Annars átti maður einna mest sálu-
félag við ýmsa óbreytta tæknilega starfs-
menn. Flestir voru frá Bretlandseyjum,
því enska var vinnumál alþjóðasam-
bandsins. Margir höfðu komið til starfa
sem hugsjónaglaðir kommúnistar en
orðið fyrir meiri eða minni vonbrigðum
með ‘framkvæmd sósíalismans’. Á þeim
vettvangi réð bresk kaldhæðni ríkjum.
Við kölluðum okkur stundum ‘Stran-
gers in Paradise’.
Íslenskir sósíalistar og
Sovétríkin
Á Íslandi var raunveruleikinn sá að fyrir
baráttu sósíalista heimafyrir skiptu
tengslin við Moskvu sáralitlu máli, jafn-
vel ekki meðan Kommúnistaflokkur
Íslands var enn starfandi, og nánast
engu eftir að hann var lagður niður.
Afglöp kommúnista og annarra sósíal-
ista hér sem víðar í heiminum voru þau
að leggja of lengi trúnað á að um ein-
hvers konar sósíalisma væri að ræða í
Sovétríkjunum.
Hin raunverulega barátta sósíalista
hér sem annarstaðar snerist um að bæta
kjör alþýðu manna til lífs og sálar á
sinni heimaslóð. Á þessa sveif hallaðist
það alþýðufólk sem þorði að standa í
eigin lappir. Á sömu sveif hölluðust
langflest skáld og aðrir listamenn um
miðja síðustu öld. Þessi barátta við fjár-
magnsvaldið, sem sameinaðist framar
öðru í Sjálfstæðisflokknum, bar mikinn
árangur. Eftir tveggja áratuga harðvít-
uga baráttu sem náði vissu hámarki í
skæruverkföllum árið 1942 bötnuðu lífs-
kjör verkamanna um 50% á því sama
ári.
Spyrja má hvort tilvera Ráðstjórnar-
ríkjanna hafi skipt einhverju máli fyrir
lífskjarasókn verkafólks á Íslandi og
öðrum Vesturlöndum. Það mun hafa
verið tvíbent. Bjartsýnisblekking getur
vissulega eflt með mönnum baráttuþor
og er alþekkt í stríðsátökum. Á áratug-
unum milli stríða hefur fullvissa margra
verkamanna um tilveru fyrsta verka-
lýðsríkis í heimi án efa aukið þeim
bjartsýni og baráttuþrek. Sú ‘staðreynd’
átti að sanna að alræði fjármagnseig-
enda væri ekki neitt náttúrulögmál.
Á hinn bóginn olli afstaðan til Sovét-
ríkjanna miklum stirðleika í samvinnu
róttækra og hægfara sósíalista. Öfga-
menn í báðum flokkum komu af þess-
um sökum oft í veg fyrir nauðsynlega
eindrægni gegn sameiginlegum and-
stæðingi. Eftir síðari heimsstyrjöld virð-
ast Sovétríkin fremur hafa orðið drag-
bítur á baráttu verkamanna á Vestur-
löndum. Draumsýnin um verkalýðsríkið
dofnaði stöðugt eftir því sem fólk gat
ferðast meira og borið saman vestur og
austur. Það er að vísu hugarburður að
sósíalistar hafi almennt búist við að
finna eitthvert sæluríki fyrir austan
tjald. Flestir væntu þess hinsvegar að
austantjaldsmenn væru á réttri leið og
urðu fyrir nokkrum vonbrigðum með
hversu skammt þeir virtust á veg komn-
ir.
Munurinn sýndist kannski ekki ýkja
mikill fyrstu árin eftir stríð. Margar
borgir Evrópu voru enn í rústum þótt
þær sem verst urðu úti hafi flestar lent
austan megin svosem Varsjá, Berlín og
Dresden. Eftir því sem á leið urðu vest-