Studia Islandica - 01.06.1993, Side 20
18
sem mestu varða við sögurannsóknir yfirleitt, tilurð hennar,
markmið og aldur. Undur þessa samdæmis eykst af því, að
varðveisla sögunnar er svo bágborin, að rúnir hennar munu
seint verða ráðnar, svo að öllum líki. í fljótu bragði virðist því
hvorki girnilegt né brýnt að leggja til atlögu við sögu, sem lítill
ágreiningur er um. Varkár gagnrýnandi mundi hugsa sig um
tvisvar, áður en hann færi að strita með þeim kraftlitlu verk-
færum, sem tiltæk eru, við að færa úr stað mosagróinn horn-
stein í aldagömlu kenningakerfi. En þrátt fyrir alla þá óvissu,
sem fylgir viðfangsefni af þessum toga, mun það gagnast hinni
endalausu þekkingarleit að vekja upp spurdaga, sem eiga rétt
á sér, enda þótt svörin verði ekki einhlít frekar en fyrri
daginn. Með þetta í huga er ýtt úr vör.
í júlímánuði 1988 flutti ég opinberan fyrirlestur á vegum
Stofnunar Sigurðar Nordals um aldur Heiðarvígasögu og
leiddi þá líkindarök að því, að sagan væri mun yngri en rýn-
endur hefðu jafnan talið. Þessar athuganir mínar um ritunar-
tíma sögunnar hafa ekki birst á prenti. Síðar sama ár fjallaði
ég um Heiðarvígasögu á sjöunda fornsagnaþingi í Spoleto á
Ítalíu, en í þetta sinn ekki um aldur hennar heldur hugmynda-
heim. Taldi ég veigamikil rök hníga til þess að leggja í söguna
aðra merkingu en fræðimenn áttu vanda til. Petta erindi var
síðan ásamt öðrum gögnum þingsins gefið út á ensku í riti,
sem nær aðeins til þröngs hóps vísindamanna.1
Það segir sig sjálft, að rannsóknir eru í raun ekki mikils
virði nema þær komi fyrir sjónir almennings og komi hinni
fræðilegu umræðu að notum. Úr því að niðurstöður mínar um
aldur og eðli Heiðarvígasögu kollvarpa fyrri skoðunum, er
löngu tímabært að birta þær í þeirri von, að þær sýni Heiðar-
vígasögu í nýju ljósi, efli þekkingu manna á henni og síðast en
ekki síst losi um gamalgróin viðhorf til íslendingasagna.
Ástæða er til að taka fram, að athuganir mínar á ritunar-
tíma sögunnar hafa verið verulega auknar, en það hefur ekki
haggað niðurstöðunum. Einnig er meginkaflinn um lífsskiln-
1 „Some Observations on Heiðarvíga saga: The Author’s Message“, 447-
461.