Studia Islandica - 01.06.1993, Page 137
135
Snorri goði biður fólk „at hafa kyrrt um sik um nóttina“.
Líklega ber að skilja þetta svo, að Snorri hafi verið minnugur
meingerða mágs síns í lifanda lífi og ekki verið grunlaust um,
að illar vættir færu á kreik, þegar myrkvaði.
Guðríður bóndadóttir brýst um í svefni „á hæl ok hnakka“
og heldur viðþolslaus á fund Styrs, þar sem hann bíður
hennar. Illur andi hleypur í Guðríði, ærir hana og „linnti hon
aldri af ópi ok umbrotum alla nóttina, þar til undir dag, þá
deyr hon“. Lifandi vegur Styrr með vopnum, dauður banar
hann með illsku einni.
Sviðsetningin er í mergjuðum draugasögustíl með vítissýn
eldsins að baki. Styrr liggur við glæður, rís upp í húðinni og
yrkir vísu, sem því miður er glötuð að mestu. Jón Ólafsson
segir sig minna, að þar hafi verið getið um „blæjuheim“ og
„moldbúaheim, sem sómir sér vel í draugavísu".1 Þetta rifjar
upp dálæti Sólarljóða á svipuðum orðmyndum: Yndisheimur,
dvalarheimur, aldaheimur og kvölheimar, þó að merkingin sé
auðvitað öll önnur. Hugsunarhátturinn er þó hinn sami, veru-
staðir manna eru margvíslegir skynheimar.
Atvikin í Hrossholti þessa nóvembernótt 1007 eru myrkir
og dulir, en þeir eru veruleiki 13. aldar mönnum. Ég legg
áherslu á, að grundvöllur draugasögunnar er guðleg útskúfun
Styrs fyrir misgerðir sínar.
Víða er hermt frá líkflutningum, ekki síst í heilagra manna
sögum. Yrkisefnið birtir með sundurleitum bendingum, hvort
hinn dauði hafi lifað hjálpvænlega eða misfarið herfilega boð-
orðum guðs með breytni sinni. Veðrátta er tíðum góð vís-
bending. Lærdómsríkt er að sækja dæmi til hliðsjónar úr Jóns
sögu helga, þar sem segir frá upptöku beina hans 3. mars árið
1200:
1 Draugavísa Styrs er til í brengluðum gerðum. Hvs., 234 nmáls. Sbr. og
„Heimild um Heiðarvíga sögu“, 90-91. Eftir Heiðarvígasögu er væntan-
lega höfð sú sögn, að Snorri hafi gengið í dyngjuna að Styr í Hrossholti „þá
er hann hafði upp sezk ok helt um miðja dóttur bónda“. (Eyrbyggja, 153).