Studia Islandica - 01.06.1993, Blaðsíða 187
185
ekki að voða í fræðimannlegri ákefð að finna „endanlega“
lausn. Margir hafa brennt sig á því að ofmeta gögn sín, og hætt
er við, að sá sem þetta skrifar, verði engin undantekning í því
efni. En vonandi þokast niðurstöðurnar hænufet í rétta átt.
Ekki þarf lengi að blaða í bók Einars Ólafs til þess að verða
þess áskynja, hversu þungt Heiðarvígasaga vegur við flestar
athuganir hans á aldri sagnanna. Víða er sagan sá sjónarhóll,
sem hann stendur á, þegar hann skyggnist yfir fræðasviðið og
metur gildi röksemda ellegar þróunarstig sagna, enda gengur
hann að því vísu, að Heiðarvígasaga sýni hið fornlegasta í
sagnagerðinni. „Margt kemur í einn stað niður um háan aldur
Heiðarvígasögu“, er hin almenna afstaða hans til tímasetn-
ingar sögunnar.1
Hrakfallasaga Heiðarvígasögu hefur þegar verið rakin í
stórum dráttum, en rifjað skal upp, að fyrri hluti sögunnar er
einungis til í 18. aldar endursögn Jóns Ólafssonar frá Grunna-
vík eftir skinnbókinni 18,4to í Stokkhólmi — ef undan er skil-
in ótraust munnleg heimild Jóns prófasts Halldórssonar í Hít-
ardal — en síðari hluti sögunnar er enn til á sjálfri Stokk-
hólmsbókinni. í engu öðru miðaldahandriti er Heiðarvíga-
saga varðveitt. Aldur skinnbókarbrotsins er vitaskuld góð vís-
bending um ritunartíma sögunnar, með því að hann veitir
vitneskju um síðari tímamörk hennar (terminus ante quem).
í skinnbókarbroti Heiðarvígasögu er mikið um ýmiss konar
pennaglöp, villur og afbakanir, sem leiða ótvírætt í ljós, að
brotið muni hafa fjarlægst að marki frumtextann.2 Þegar svo
ber við, að saga er einungis varðveitt í einu handritabroti frá
miðöld, þá knýr sú spurning dyra: Hvaða mynd gefur brotið í
raun og veru af búningi sjálfrar frumsögunnar?3 Strangt tekið
erum við að fjalla um framsetningu Heiðarvígasögu í 18,4to,
en ekki um óbrjálaða frumsöguna.
Lítið sýnishorn speglar þann vanda, sem við er að glíma.
1 Ritunartími íslendingasagna, 157.
Um ritvillur, úrfellingar og endurtekningar í skbr., sjá m.a. umfjöllun
Bjarna Einarssonar: The Saga of Gunnlaug Serpent-Tongue, 24-28.
Sjá athugasemdir Einars Ólafs Sveinssonar um breytingar texta: Ritunar-
tími íslendingasagna, 52-59.