Studia Islandica - 01.06.1993, Blaðsíða 43
41
sonar né eru tilfærð hin fleygu orð Gests: „Þar launaða ek þér
lambit grá.“
Jón Halldórsson segir Styr hafa verið veginn í fasta svefni,
en Jón Ólafsson, að hann sé af lífi tekinn, þar sem hann situr
við eldinn. Fer ekki á milli mála, að sögn Jóns Ólafssonar er
upprunalegri og virðist frásögn Jóns Halldórssonar ekki mik-
ils trausts verð, þegar hún fer á mis við slík grundvallaratriði
við aftöku Styrs.
Athyglisverð er saga Jóns prófasts af reið Styrs um Löngu-
fjörur suður um sveitir að Jörva, þar sem hann er sagður veg-
inn af bræðrum tveimur frá Snorrastöðum. Á vegi Styrs verð-
ur aldraður maður, ríðandi svörtu hrossi, og skiptast þeir á
orðum. Karl segir, að þeir muni brátt hittast aftur, við það
reiðist Styrr og vill höggva hann, en karl hverfur sjónum. Er
það hald manna, segir Jón prófastur, að karlinn hafi verið
„forynja Styrs, sem boðaði honum feigð og bráðan dauða“.'
Þessi feigðarboðun Styrs er ekki sjáanleg hjá Jóni Ólafs-
syni, og vaknar þá spurningin, hvort hún hafi fallið honum úr
minni. Um það verður ekkert fullyrt, en víst er, að hún á
naumast heima í frásögn Jóns, því að feigðarför Styrs er þar
farin vestur frá Ferjubakka í Borgarfirði að Jörva en ekki suð-
ur Löngufjörur. Óneitanlega er dráp Víga-Styrs í endursögn
Jóns í ólíkt rökvíslegra umhverfi en í ritkorni Jóns prófasts,
þar sem botninn er dottinn úr sögunni.
Fróðlegt er að bera saman sögur nafnanna af líkflutningi og
greftrun Styrs. Jón Ólafsson segir, að Snorri goði hafi dysjað
Styr á melholti einu, farið eftir líkinu næsta vor, jarðað það
undir Hrauni og flutt síðan að Helgafelli, eftir að Hrauns-
kirkja brann. Þessi frásögn hefur tekið á sig aðra mynd hjá
Jóni Halldórssyni:
og var það (þ.e. lík Styrs) dysjað þar á holtinu við almennings
veginn, og heitir þar síðan Styrsvarða, sem enn (nú) stendur þar
á holtinu. Bær nokkur stóð, er hét Borgir, skammt frá. Hann
lagðist í eyði vegna reimleika og ónáða, þar eftir var bærinn
Sveinbjörn Rafnsson: „Heimild um Heiðarvíga sögu“, 93. Tilvitnun færð
hl nútímahorfs.