Studia Islandica - 01.06.1993, Blaðsíða 251
249
forða lífi hans úr brennunni með því að kasta yfir hann kven-
skikkju og falda honum við höfuðdúki. Þótt frásagnir af dul-
búningi séu afar vinsælt söguefni í bókmenntum miðalda,
dettur mér í hug, að Laxdæla gæti verið enn einu sinni óbein
fyrirmynd að þessari tiltekju Heiðarvígasögu. Helgi Harð-
beinsson lætur konur klæðast karlfötum og ríða á braut úr seli
til að ginna Þorgils Hölluson til eftirreiðar. „Kann vera, at
þeir, sem nær oss sitja, þekki eigi, hvárt þar ríða karlar eða
konur,“ segir Helgi.1 Ekki bar þetta samt árangur. Þess er og
að geta, að Þorgils sjálfur dulklæðist í för sinni til Skorradals
til njósna um hagi Helga, en hann klæðist þó ekki sem kona,
heldur tók yfir sig gráan „váskufl“. En hvernig sem þessu er
háttað, verður ekki fyrir það synjað, að lítill hetjubragur er á
köppum, sem ríða um sveitir í kvenbúningi og það á heima-
slóðum, þar sem gera mætti ráð fyrir, að þeir væru óhultir.
Fataskiptin virðast því gefa lesendum tilefni til kímni eða að-
hláturs. Þess má geta, að óheimilt var körlum samkvæmt forn-
um lögum að klæðast kvenklæðum, og liggur þar óefað að
baki hugsunin um ergi eða kynvillu.2
Höfundur tvinnar hér saman hið hetjulega og fáránlega, og
sýnir það tvíræðni sögunnar, eins og Anne Heinrichs vakti at-
hygli á í sambandi við Þuríði og ofanreið hennar. Kvenbúnað-
ur Barða og förunauta hans bendir til þess, að Heiðarvígasaga
sé að hæða þann hetjuskap, sem beinist að manndrápum, líkt
og þegar Víga-Styrr vó Þórhalla bónda á Jörva.
Mikið kveður að Snorra goða bæði í Laxdælu og Heiðar-
vígasögu, og eru þar sviplíkar myndir af honum dregnar.
Hann er slægvitur ráðagerðamaður, sem kemur sínu fram.
Bolli Bollason í Laxdælu og Barði Guðmundarson í Heiðar-
vígasögu kvongast báðir dætrum Snorra, Þórdísi og Auði.
Brúðkaup hvorratveggju er haldið að Snorra. Svo segir Lax-
dæla:
1 Laxdœla, 190.
í Konungsbók Grágásar er þessi klausa: „Ef kona klæðist karlklæðum eða
sker sér skör eða fer með vopn fyrir breytni sakir, það varðar fjörbaugs-
garð. Það er stefnusök, og skal kveðja til búa fimm á þingi. Sá á sök er vill.
Slíkt er mælt um karla ef þeir klæðast kvenna klæðnaði“, 125.