Studia Islandica - 01.06.1993, Side 35
33
góðu heilli glapið þeim sýn. Jón Ólafsson, ritari Árna, skrifaði
síðan upp þennan frampart um áramótin 1727-1728, en svo
illa vildi til, að frumbókin og afrit Jóns brunnu í Kaupmanna-
hafnareldinum 1728. Var það að sjálfsögðu óbætanlegur
skaði. Fyrir tilstuðlan Árna ritaði Jón söguhlutann að nýju, en
að þessu sinni eftir minni og studdist hann að auki við lista yfir
fágæt orð og orðasambönd, („Archaismi et loqvendi modi
rariores“), sem hann hafði í fróðleiksskyni tínt saman, þegar
hann skrifaði upp skinnbókina. Óefað hefur þessi fornyrða-
skrá verið Jóni góður vegvísir við uppskrift sögunnar.
Af þessu leiðir, að fyrri hluti Heiðarvígasögu er glataður og
texti hennar í útgáfum er settur saman af annars vegar endur-
sögn Jóns og hins vegar skinnbókarbroti sögunnar, sem eftir
varð í Stokkhólmi. Öll saga Styrs og þar að auki upphafið að
sögu Barða er minnissaga Jóns, en frásögnin af Barða er að
öðru leyti eftir skinnbókarbrotinu. Söguhlutarnir tveir eru
ámóta langir, ná efnislega saman og mynda rökvíslega heild.
Fyrsta spurningin er þessi: Hvert er gildi skinnbókarbrotsins í
Stokkhólmi?
Allajafna er miklum erfiðleikum bundið að meta áreiðan-
leik texta eða afstöðu til frumsögu, þegar hann er einvörð-
ungu varðveittur í einu handriti og fá eða engin gögn eru til
samanburðar. í slíku tilfelli á ritskýrandinn ekki annarra
kosta völ en dæma textagildið eftir innri rökum svo valt sem
það er.1
Eins og málum er háttað, væri ekki loku fyrir skotið, að
skrifari hefði bylt frumriti sínu á ýmsan hátt, stytt eða lengt
eftir atvikum. En þess eru engin örugg dæmi í brotinu. Aftur
á móti liggur í augum uppi, að brotið er ekki gallalaust, því að
það sýnir margvíslegar minniháttar misfellur, sem fólgnar eru
• ýmiss konar misritunum, úrfellingum, endurtekningum og
afbökunum, eins og tíðkast í miðaldahandritum. Sagan virð-
ist aftur á móti hvergi vera mikið úr lagi færð, enda er skinn-
bókarbrotið gamalt, svipur textans fornlegur, söguþráðurinn
Hvs., ci—cii. — Einar Ólafur Sveinsson: Ritunartími íslendingasagna, 33-
49.
L