Studia Islandica - 01.06.1993, Side 22
20
fræði, mannfræði, tímatal og alls kyns sögulegan fróðleik.
Um söguna sjálfa er fjallað á átta síðum. Þessi hlutföll sagn-
fræði og bókmennta við athuganir á sögunni tala skýru máli
um afstöðu fræðimanna til Heiðarvígasögu, enda tekur Sig-
urður fram á öðrum stað, að sagan geti ekki „kallazt skáld-
saga“.' Til þess að sannmælis sé gætt, ber að nefna, að Heið-
arvígasaga hefur heimtað margar og miklar söguskýringar fyr-
ir sakir bágrar varðveislu.
Heiðarvígasaga hefur verið nátttröll í íslenskum bók-
menntarannsóknum allar götur frá því, að fræðilegar rann-
sóknir hófust á íslendingasögum á fyrra hluta 19. aldar. Við
ritskýringar á sögunni hefur blindur leitt blindan, og gagnrýn-
endum hefur skotist yfir leynda dóma hennar. Peir hafa ekki
komið auga á lífsgildin, sem liggja að baki nöktum atburðum,
en þau gera söguna í senn að siðferðislegri spegilmynd ritun-
artímans og að sérkennilegu bókmenntaverki. Heiðarvíga-
saga hefur verið ritskýrendum í reynd lokuð bók, því að hún
hefur ekki verið skilin réttum skilningi, enda ekki eftir honum
leitað. Sá skilningur er hinn huglægi vilji verksins, sem er
kveikja allra hluta. Það er ekki vonum fyrr, að farið sé að
grennslast eftir því, hvað höfundur Heiðarvígasögu hugðist
fyrir.
Margir ágætir fræðimenn hafa gert glögga grein fyrir varð-
veislu sögunnar og tekið saman margar nytsamlegar athuga-
semdir um hana, sem unnt er með góðu móti að reiða sig á.
Hér er því síður en svo um allsherjarkönnun að ræða. Ekki
verður til að mynda fjallað að neinu gagni um vísur sögunnar
og uppruna þeirra, sem er vissulega að sama skapi forvitnilegt
sem það er torleyst viðfangsefni, svo sem Sigurður Nordal
vakti athygli á.1 2 Hafi ég eitthvað nýtt og bitastætt fram að færa
til aukins hugmyndasögulegs skilnings á Heiðarvígasögu, þá
eiga fyrri ritskýrendur hlutdeild í því og þakkir skildar.
1 Um íslenzkar fornsögur, 136.
2 Vert er að vekja athygli á athugunum Guðrúnar Ingólfsdóttur á bók-
menntagildi vísna. Sjá grein hennar: „Um hlutverk vísna í Islendingasög-
um“, 226-240 og þar tilvitnuð rit.