Studia Islandica - 01.06.1993, Side 193
191
borð fyrir gesti sína, og sagan segir: „En at dagverðarmáli um
daginn kómu fram fyrir þá diskar." Hef ég fyrr gert grein fyrir
þessari frásögn. Giska ég á, að listræn nauðsyn komi
höfundi til að geta þess, að „þá váru engir diskar“, og tilefnið
sé sótt til þeirrar heimildar, sem stuðst hafi verið við. Líku
máli gegnir ef til vill um brúna á Hvítá. Víst er hitt, að hún
stoðar lítt við aldursákvörðun.
Af þessu má marka, að menn þurfa að vera á varðbergi,
þegar „sagnfræðilegar“ röksemdir eiga í hlut, og skylt er að
huga vendilega að uppruna hverrar lýsingar fyrir sig og til-
gangi hennar.
Svo sem fyrr greinir, taldi Björn M. Ólsen, að hið fornlega
málfæri Heiðarvígasögu væri ábending um, að hún væri lík-
lega elst allra íslendingasagna, og tíndi hann til mörg athygl-
isverð dæmi til að sanna mál sitt.1 Aðrir fræðimenn hafa að
vonum fetað í fótspor hans og talið þessa röksemd einna
traustasta fyrir háum aldri sögunnar. Einar Ólafur dró eftir-
farandi ályktun af orðfæri sögunnar: „Hér og þar í íslendinga-
sögum koma fyrir sumar þvílíkar orðmyndir, en ekki mun
nokkur þeirra geta státað af svo langri runu.“2 Ekki verður
þessi umsögn í sjálfu sér rengd, en hversu veigamikil er hún?
Fornlegar orðmyndir vitna um, að sagan sé „fornleg“, en
segja ekki, hve „gömul“ hún er.
Einar Ólafur lætur þess jafnan getið, að einstakar orð-
myndir dugi lítt til aldursgreiningar, en í tilviki Heiðarvíga-
sögu sé slíku ekki fyrir að fara sökum fjölda dæma. Hann ger-
ir grein fyrir ýmsum orðmyndum, sem vænlegt er að hafa til
hliðsjónar við aldursgreiningu sögunnar og nefnir þar m.a.
fyllingarorðið of, forsetninguna of, viðskeytt fyrsta persónu-
fornafn, viðskeytta neitun með sögnum, viðskeytt -gi, saman-
dregin orð líkt og hvars (þ.e. hvar es), og hljóðbreytinguna
nnr>ðr. Sýnir Einar Ólafur, hvernig þessi mállegu fyrirbæri
birtast í Heiðarvígasögu Að því búnu dregur hann fram all-
margar einstakar orðmyndir, sem setja svip sinn á söguna:
\ Um íslendingasögur, 210.
Ritunartími íslendingasagna, 121.