Studia Islandica - 01.06.1993, Page 149
147
Barða sem ráðgjafa og ráðþega eru fyrirmynd að Njáli og
Gunnari á Hlíðarenda, ekki síst þegar Gunnar fer háskaför
sína í dulargervi Kaupa-Héðins vestur í Dali til fjárheimtu
heimanmundar Unnar Marðardóttur.1 Njáll sér allt fyrir líkt
og Þórarinn. Peir minna báðir á hinn forsjála Óðin, en Þórar-
inn á Lækjamóti á sér að öllum líkindum fleiri rætur.2
Hógværð Barða á alþingi eru undirmál Þórarins. Málatil-
búnaðurinn er einstaklega siðlaus, því að Þórarinn lætur
Barða segja eitt, en hafa annað í huga og færa sök á saklaus-
an. Hugsanir, orð og gerðir eru blekkingar. Af atburðarásinni
mætti ætla, að Barða væri ókunnugt um stefnu mála, fyrr en
hann reið til hins þriðja þings, og sýnir það verkaskiptingu
þeirra Þórarins í sögunni og um leið grunnhyggni Barða. Á al-
þingi eru höfð uppi undirferli og fláræði undir yfirskini still-
ingar og þolinmæði. Þórarinn gefur Barða ráð til að stofna til
nýs fjandskapar með kröfum og réttlæta þær síðan með því
sem gerist eftir að kröfurnar voru hafnar. Líklega eru lesend-
ur staddir í miðri stjórnmálabaráttu Sturlungaaldar. Bóta-
kröfur Barða á tveim fyrstu þingum eru aðeins fyrirsláttur,
uns sakbitinn fyndist. Aldrei stóð til að láta víg Halls vera
mannhefndalaust. Þingheimur er leiddur á villigötur, því að
hann væntir sér ekki slíkra óheilinda á þjóðarsamkundunni,
þótt hann hafi efalaust verið ýmsu vanur, og lofar því Barða,
hversu spaklega hann fer að málum. Ræða hans er skinhelgi.
' Njála, 59 o.áfr.
Þórarinn, fóstri Barða, sem kallaður er „goði“ í Heiðarvígasögu, er utan-
gátta í sögulegum heimildum. Þorvaldur víðförli og Friðrekur biskup
bjuggu að Lækjamóti 982-986, og nokkur hin næstu ár fyrir Heiðarvígin
bjó þar að sögn Fóstbræðrasögu og Grettissögu Þorgils Máksson, einmitt
þegar Heiðarvígasaga segir, að Þórarinn hafi búið að Lækjamóti. Sjá Hvs.,
255 nmáls. Ég hygg, að söguleg skýring eigi ekki við. Ég læt mér til hugar
koma, að lausnin sé fólgin í sjálfu nafni Þór-arins líkt og í heiti Þór-ríðar
(þ.e. Þuríðar) og Þor-steins Víga-Styrssonar. Þessar söguhetjur eru allar
forneskjufólk, kenndar við Ása-Þór og standa fyrir hefndinni. Nafn Þórar-
ins er með öðrum orðum táknrænt (sbr.Ynglinga saga, Hkr. I, 20: „en af
Þórs nafni er kallaðr Þórir eða Þórarinn"). Frá vélum Þórarins til að koma
fram hefnd er sagt í afar löngu máli. Þær teygja sig inn í flesta króka samfé-
lagsins og lykta með drápi saklauss manns á akri. Aðferðin ein saman birtir
afstöðu höfundar til manndrápa.