Studia Islandica - 01.06.1993, Blaðsíða 190
188
leitt mun gilda sú regla, að þeim mun yngra sem handritið er
þeim mun yngri er sagan.1
Þrátt fyrir það er auðvitað ekki loku fyrir það skotið, að
Heiðarvígasaga sé jafngömul og menn vilja vera láta, en síð-
ari aldursmörk verða eftir þessu að dæma að öllum líkindum
ekki um 1250 heldur um 1300. Það er fyrir mestu.
Þegar sögur herma frá mönnum og málefnum, eftir að þær
gerðust eða greina frá menningarsögulegum atriðum, sem
gera má ráð fyrir, að veiti nokkra vitneskju um aldur sagna, er
talað um sagnfræðilegar röksemdir. Þær koma stundum að
góðu haldi, en hrökkva oft skammt sökum þess, að erfitt er að
meta þær og vega. Einar Ólafur nefnir dæmi úr Heiðarvíga-
sögu, sem vert er að gefa gætur.
Á einum stað í Heiðarvígasögu er Guðmundur ríki á
Möðruvöllum kallaður gamli,2 og hyggja útgefendur sögunn-
ar, að nafngiftin sé síðar upp komin til að greina Guðmund
ríka frá sonarsyni sínum og alnafna, Guðmundi Eyjólfssyni
hins halta. Einar Ólafur þvertekur ekki fyrir þetta, en telur
víst, að auknefnið sé fornt og frá þeim tíma, þegar menn
mundu vel aftur eftir 12. öld. „Er það þá eitt af mörgu, sem
mælir með háum aldri Heiðarvígasögu“, segir Einar Ólafur.3
Samtímis bendir hann á, að í Svarfdælu, sem er alls ekki
eldri en frá 1300 að dómi Jónasar Kristjánssonar4 sé nafn
Guðmundar ríka einnig aukið á sömu lund: „Þórdís, dóttir
Guðmundar gamla“,5 en í því tilfelli ætlar Einar Ólafur, að
nafngiftin sé að líkindum sótt til gamallar ritheimildar. Þessar
mismunandi ályktanir af sömu forsendu sýna almennt afstöðu
fræðimanna til Heiðarvígasögu, sem á fortakslaust að styðjast
við forn munnmæli eða arfsagnir. Ekki er alveg út í hött að
tala um vítahring í sumum röksemdafærslum fyrir aldri Heið-
arvígasögu.
1 Sjá t.d. Örnólfur Thorsson: „Leitin að landinu fagra“, 28-53. — Jónas
Kristjánsson: „Var Snorri Sturluson upphafsmaður íslendingasagna?“,
104-105.
2 Hvs., 318.
3 Ritunartími íslendingasagna, 72.
4 Svarfdœla, lxxxviii.
5 Svarfdœla, 183.