Studia Islandica - 01.06.1993, Blaðsíða 27
25
völlum. Barði fer utan til Noregs, og Ólafur helgi synjar hon-
um vetursetu (36.-39. kap.). Barði snýr heim, fær Auðar,
dóttur Snorra goða, og eru þau með honum vetrarlangt. Þau
sitja um vetur í Noregi, þar skilur Barði við Auði, heldur til
Miklagarðs og fellur þar í liði Væringja (40.-41. kap.).1
Ekki er því að leyna, að framvinda Heiðarvígasögu er á köfl-
um snúin, frásagnarhátturinn óþjáll, persónur hvorki marg-
brotnar né óræðar og þar til koma gamalkunnar lífsskoðanir
hetjusagna, sem leiða í ljós yfirburðastyrk í mannraunum en
ekki flókið sálarlíf. Enda þótt Heiðarvígasaga hafi í líkingu
við aðrar íslendingasögur dulmál fyrirburða og drauma, sýnir
orðalagið ekki mikinn skyldleika við margræðni bók-
menntamáls, sem brýnir menn til að kafa í sögutextann.
Fyrsta kastið virðist öll merking sögunnar auðsótt til yfirborðs
hennar. Ekki verður efast um snilld höfundar til að segja sögu
og nægir að benda á orðaleiki, sögufléttur og listræn brögð því
til sönnunar, og hvergi kemur frásagnaríþrótt hans betur í ljós
en við margslunginn undirbúning að suðurferð Barða Guð-
mundarsonar, sem spannar stóran hluta sögu hans. Þá er ekki
síður athyglisvert, að sagan greinir frá mörgu, mönnum og
málefnum, sem á sér naumast samsvaranir í öðrum sögum.
Heiðarvígasaga er bæði lík og ólík öðrum íslendingasögum.
Einkum vekur það sem er öðruvísi forvitni, enda er þess að
vænta, að þar liggi helst fiskur undir steini.
Víga-Styrr á vanda til að murka lífið úr varnarlausum
bændum, uns hann er sjálfur drepinn af smásveininum Gesti
Þórhallasyni, sem aldrei hefur vopn borið. Dauður ærir Styrr
bóndadóttur, og Snorri goði, mágur hans, á ekki annars úr-
kosta en að dysja hann vetrarlangt á melholti einu, þegar lík
Styrs tekur að snúast öfugt og verða svo þungt í flutningi, að
líkmenn fá ekki valdið honum. Önnur aðalhetja Heið-
arvígasögu gengur aftur.
Forneskja heitir orsök þess, að Barði fær eigi hirðvist með
1 Kapítulatölur eru úr útgáfu Heiðarvígasögu frá 1938, en ekki úr Ijósprent-
uðu útgáfu sögunnar í íslenskum fornritum, eftir að skinnblað hennar kom
í leitirnar.