Studia Islandica - 01.06.1993, Síða 36
34
óslitinn og frásagnarhátturinn í sumum greinum sérstakur.
Engin rök hníga til annars en að taka hina fornu bók sem full-
gildan texta Hvs., sem standi ekki óralangt frá frumsögunni.1
Hin forna skinnbók Heiðarvígasögu í 18,4to var ekki betur
á sig komin en svo, að í hana vantaði í senn eitt blað úr bók-
inni og sjálft upphafið. í síðara hluta Heiðarvígasögu hafði
verið eyða eftir þetta blað, sem skorið hafði verið úr skinn-
bókinni, áður en hún hvarf til Svíþjóðar. Blaðið varð á vegi
Magnúsar Más Lárussonar í Landsbókasafni 1951 og hafði
borist þangað 1911 með gögnum frá Steinsstöðum í Öxnadal.
Petta var auðvitað mikill hvalreki, en sá var galli á gjöf
Njarðar, að letur á úthlið blaðsins var máð og að mestu ólæsi-
legt. Skinnblaðið fyllti þó í skarðið og leysti úr ýmsum ráðgát-
um um Heiðarvígasögu. Jón Helgason las blaðið og vísa ég til
greinar hans um það í Árbók Landsbókasafnsins 1950-1951.
Eins og nærri má geta, skipar hið nýfengna blað sinn rétta sess
í öllum síðari útgáfum sögunnar.
Fræðimenn eru einhuga um, að til greina komi, að eitt kver
með átta blöðum hafi getað farið forgörðum framan af bók-
inni.2 Óvíst er, hvað stóð á þeim blöðum.
Ég efa ekki, að þar hefur verið sagt frá ætt og einkennum
Styrs og trúlega frá fleiri vígaferlum hans. Eyrbyggja er fáorð
um þetta efni, þótt hún sæki til Heiðarvígasögu og hermi frá
Styr. Hafi Heiðarvígasaga greint í löngu máli frá mannvígum
Styrs, er ekki ólíklegt, að höfundur Eyrbyggju hafi sneitt hjá
því að endursegja þau að hætti höfunda fornsagnanna, eins og
Sigurður Nordal drepur á. Þess ber þó að geta, að höfundur
Eyrbyggju Iét ekki berserkjaþáttinn í Heiðarvígasögu aftra
sér frá því að fella hann inn í sögu sína. Að auki tæpir hann
m.a. á vígi Þorbjarnar kjálka.
Endursögn Jóns Ólafssonar snýst um Styr og fylgist með
hverju fótmáli hans, svo að ég á bágt með að koma auga á tíð-
indi úr ævi hans, sem gætu tekið yfir heil átta blöð, ef undan
eru skilin manndráp hans. Aðalatriðið er, að þau myndu vart
1 The Saga of Gunnlaug Serpent-Tongue, 43.
2 Um íslendingasögur, 181.