Studia Islandica - 01.06.1993, Side 67
65
orrustu „á galeiðum11.1 Pess má geta, að galeiða er stakorð í
íslendingasögum.
Barði gerði „mgrg stór verk“, áður en hann beið bana, og
leiðir orðalagið hugann að „stórræði“ í ummælum Ólafs
helga. Barði hverfur því af sjónarsviðinu við góðan orðstír,
eins og hans var von og vísa. En er þetta allt og sumt?
Ævi Kolskeggs, bróður Gunnars á Hlíðarenda, kemur í
þessu samhengi upp í hugann. Hann varð „guðs riddari“,
gekk á mála í Miklagarði, kvongaðist þar, gerðist höfðingi
fyrir Væringjaliði og var þar til æviloka.2
Líkt og Kolskeggur gerðist Barði guðs riddari með því að
verja kristni fyrir heiðnum þjóðum. í staðinn fyrir að vega
kristna menn fyrir litlar sakir drepur hann heiðna menn, og
þau víg eru lofsamleg að skilningi krossferðartímans. Með
dauðdaga sínum bætir Barði fyrir brot sín og friðmælist við
guð. Barði líkist hinum franska Rollant, sem bjargar sál sinni
með því aðfalla í orrustu við múgheiðingja. Verður síðar vik-
ið nánar að þessu efni. Lífshlaup Barða, eftir að hann gekk af
fundi Ólafs helga, er staðfesting á ummælum konungs.
Að öllu þessu athuguðu sýnist mér ummæli Ólafs helga við
Barða, þau sem réðu brottrekstri hans, vera fordæming á
óguðlegum athöfnum, sem hverfast um þrjú meginhugtök:
Forneskja: Mannhefndir að hætti heiðinna manna
og sú lífsafstaða, sem elur þær.
Átrúnaður: Trú á mátt sinn og megin, þ.e. að
trúa eiginlega á sjálfan sig.
Rið: Það er hin þunga sveifla, afleiðing hófleysu
og vanstillingar manna.
Að dómi höfundar eru þetta neikvæð fyrirbrigði, sem eru
öndverð jákvæðum gildum. Hann varpar skærri birtu á þessar
andstæður með lærdómsríkum frásögnum ýmist til varnaðar
eða eftirbreytni. Þannig dregur höfundur fram kerfi nei-
kvæðra og jákvæðra lífsgilda í Heiðarvígasögu.
^ Sjá Sigfús Blöndal: Vœringjasaga, 319.
Njála, 197. — Sigfús Blöndal: Væringjasaga, 313-315.