Studia Islandica - 01.06.1993, Page 68
66
2. Eggjun og ofanför Þuríðar
A. Eggjun
Barði Guðmundarson eða Víga-Barði á ekki langt að sækja
ofstopa sinn, þann sem fram kemur við Auði í skemmunni,
því að Puríður, móðir hans, er af sama toga. Þuríður er ein
eftirminnilegust persóna sögunnar. Hún er persónugervingur
forneskjunnar, en Ólafur helgi er æðsti dómari kristilegrar
breytni, sem fordæmir forneskjuleg manndráp. Ólafur helgi
og Þuríður eru andhverfur sögunnar. Öll hugsun Þuríðar, orð
og verk beinast að því að knýja fram hefnd eftir son sinn, og
gildir hana einu, hver fyrir hefnd verður. Lesendum og áheyr-
endum hefur ekki þótt ofstæki og hefndarþorsti Þuríðar mikið
tiltökumál, af því að hún var dótturdóttir Egils Skallagríms-
sonar. Henni kippti í kynið. Ritskýrendur hafa litið á vanstilli
Þuríðar af eins konar velþóknun, og rómantíska söguskoðun-
in hefur hafið Þuríði til vegs með þjóðinni sem sanna ímynd
fornrar kvenhetju.
Þuríður kemur við tvö atvik, sem Heiðarvígasaga miklar
eftirminnilega. Fyrra atvikið er eggjunin, þegar Þuríður er að
hvetja sonu sína ákaflega til hefnda. Hið síðara er ofanförin,
sem svo er nefnd, þegar Þuríður hyggst ríða með sonum sín-
um suður um heiði til að fylgja eftir frýju sinni, en í óbeisluð-
um hetjuskap sínum er höfðingskonunni steypt smánarlega af
fararskjóta sínum ofan í Saxalæk. Sú frásögn vísar til orða
Ólafs helga um rið og afleiðingar þess.
Þessi atriði tengjast, og þau ber að skilja í samhengi við
aðra merkingarþætti sögunnar. Ofanförin á sér ekki hliðstæðu
í fornum sögum fremur en margt annað í Heiðarvígasögu.
Hún verður því aðeins vegin og metin með innri rökum sög-
unnar. Öðru máli gegnir um eggjunina. Hún er algengt ritklif
í íslenskum miðaldabókmenntum, og þar er unnt að láta
skyldar frásagnir varpa skæru ljósi á „hvöt“ Þuríðar. Á ég hér
einkanlega við brýningu Þorgerðar Egilsdóttur í Laxdælu,
sem er í reynd bæði forsenda og leiðarvísir að fræðilegri rann-
sókn á frýju Þuríðar, dóttur hennar. Af þeirri ástæðu er