Studia Islandica - 01.06.1993, Page 160
158
endum mismunandi afleiðingar þeirra. Samræmdar lyktir
vitna um hvorttveggja: íhygli höfundar og áhugamál hans.
Menn eiga að nema lærdóma af misjöfnum örlögum Gests og
Barða. Saga Barða er til varnaðar, en Gestur er leiðarstjarna
á torfarinni jarðarreisu.
Heiðarvígasaga er saga einstaklinga, sem flestir eru full-
trúar ákveðinna hugsjóna og hafa því almennt leiðsagnargildi
fyrir mannlega hegðun. Eins og fram hefur komið, bagar
Barða einkum þrennt að dómi Ólafs helga til þess að vera
hlutgengur í kristilegu samfélagi: forneskja, átrúnaður og rið.
Þótt mér hafi orðið tíðrætt um rið, er ástæða til að fara enn
frekari orðum um það, þar sem það er grundvallarhugtak.
Orðið rið (sbr. önnur orð af sama stofni: riða, rið-l-ast, at-
riði o.s.frv.) er, eins og fyrr segir, haft um „hreyfingu“, sbr.
afleiddu sögnina reiða (af ríða), þ.e. „setja á hreyfingu,
koma úr jafnvœgi“, sem notuð er um Þuríði kerlingu, þegar
henni er steypt af fararskjóta sínum í Saxalæk. Rið í merkingu
Heiðarvígasögu, þar sem orðið er haft um „sveiflu úr jafn-
vœgi“, er fátítt í íslendingasögum, en er þar eigi að síður
grundvallarhugtak, sem yfirleitt er tjáð með orðunum „um of,
óhóf, ofsi“, og leiðir slíkt ástand jafnan til ófarnaðar eða
glötunar þeirra sem í hlut eiga,1 enda lagar hugmyndin um rið
sig auðveldlega að „ofmetnaði“, sem er höfuðlöstur í kenn-
ingakerfi kirkjunnar. Augljóst er, að „hófið eða jafnvægið“ er
hið eftirsóknarverða ástand einstaklinga og samfélags. Fornar
sögur hefjast í skapnaðarfriði, síðan riðlast þær, svo að hlutir
1 Þorkell Eyjólfsson sótti á fund Ólafs helga til þess að fá sér kirkjuvið og
gerðist svo stórtækur, að konungi blöskraði. Fór Þorkell ekki að orðum
hans. Þá mælti konungur: „Bæði er, Þorkell, at þú ert mikils verðr, enda
gerisk þú nú allstórr, því at víst er þat ofsi einum bóndasyni, at keppask við
oss; en eigi er þat satt, at ek fyrirmuna þér viðarins, ef þér verðr auðit at
gera þar kirkju af, því at hon verðr eigi svá mikil, at þar muni of þitt allt inni
liggja." (Laxd., 216-217). Ólafur helgi segir fyrir, að Þorkell muni litla nyt-
semd hafa viðarins, enda drukknar hann eftir heimkomuna á Breiðafirði.
Ólafur helgi talar um rið Barða í Heiðarvígasögu en ofsa og of, þ.e. oflæti,
Þorkels í Laxdælu. Orðin eru hér samheiti og afleiðingarnar áþekkar: Hirt-
ingin bíður á næsta leiti. Munurinn er samt ærinn. Þorkell ofsar sér til vansa
við Ólaf helga sökum kirkjuviðar, en rið Barða beinist að manndrápum.