Studia Islandica - 01.06.1993, Blaðsíða 180
178
sagnanna hvíldi á og sá kvarði, sem ritunartími annarra sagna
var miðaður við. Fyrir bragðið varð bókmenntaleg staða
Heiðarvígasögu einstæð meðal fornsagnanna. Hún markaði,
eins og fyrr segir, upphaf íslendingasagna, og hún var höfð að
kennileiti til að greina rætur, þroska og hnignun sagnanna.
Fræðimönnum varð einkar starsýnt á gildi Heiðarvígasögu við
rannsóknir fornsagnanna sökum stöðu hennar, en voru ekki
að sama skapi glöggskyggnir á eigin verðmæti hennar.
Áður en ég kem að einstökum röksemdum fyrir aldri sög-
unnar, er vert að hugleiða almenn félagsleg skilyrði fyrir ritun
hennar. Saga, sem er virk og merkingarbær, skírskotar jafnan
til lesenda með því að vera sprottin úr umhverfi þeirra og vera
aðili að sameiginlegum reynsluheimi. Með því að Heiðarvíga-
saga snýst einarðlega gegn ranglæti, ofbeldi og manndrápum
en mælir fyrir friði og þeim félagslegu gildum, sem tengjast
honum, þá er fyllsta tilefni til að spyrja: Hvenær verða for-
sendur brýnastar í íslensku samfélagi fyrir ritun slíkrar sögu?
Höfundur friðarsögu bregður upp svipmyndum af veruleika
ófriðar í hrikaleik sínum án beinna útlegginga, enda gerist
þeirra eigi þörf, þar sem lesendur eru með á nótunum.
Friðarsaga heyrir ófriðartímum til. Af þeim sökum er við
því að búast, að Heiðarvígasaga sé skrifuð, þegar yfirgangur
og réttleysi er daglegt brauð, og almenningi er nóg boðið, svo
að hann fær vart risið undir slíkri áþján. Friðurinn verður
þeim langþráður, því að tíð misindisverk virðast engan endi
ætla að taka og þau brýna menn til mótblásturs, jafnvel með
orðið eitt að vopni. Erlendar og innlendar fyrirmyndir í
bókarlíki voru tiltækar. Það liggur í augum uppi, að friðarsög-
ur reyna að tala um fyrir mönnum og benda á, að mannhefnd-
ir og vígaferli gangi gegn lögum guðs og manna og siðuðu
þjóðfélagi sé háski búinn, haldi fram sem horfir og saklausir
menn séu af lífi teknir. Samtímis vilja friðarsögur vísa með
dæmum veg til sátta og samlyndis og koma því á framfæri, að
menn geti með góðu móti haldið virðingu sinni óskertri án
manndrápa, þó að flekkur hafi á hana fallið. Það mun því
sanni næst, að Heiðarvígasaga sé eigi samin á kyrrleikstímum
heldur í hildarleik Sturlungaaldar, þegar halla tekur á 13. öld-